Innborganir og uppgreiðslur lána
Innborganir og uppgreiðslur lána
Þú getur valið að greiða inn á húsnæðislán umfram venjulegar afborganir og lækka þannig höfuðstólinn eða greiða lánið upp að fullu. Aðrar reglur gilda um þó um hlutdeildarlán og eftirfarandi upplýsingar eiga því ekki við þau.
HMS sendir lángreiðendum kröfur í heimabanka fyrir einstakar greiðslur en einnig er í boði að semja um fastar umframgreiðslur. Fyrir sum lán þarf að greiða uppgreiðslugjald.
Dæmi
Þú vilt borga 1 milljón króna inn á húsnæðislánið í einni greiðslu.
Þú vilt greiða 100 þúsund krónur inn á lánið mánaðarlega umfram reglulega afborgun.
Þú vilt greiða lánið upp að fullu í einni greiðslu.
Þú vilt nota viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á lánið.
Greiðsla inn á lán
Þú skráir þig inn á lánavef HMS og velur að greiða inn á lán. Þar finnurðu lánið og tiltekur upphæð innborgunar.
Einnig er hægt að hafa samband við HMS í síma 440 6400 eða með tölvupósti, hms@hms.is.
Þú óskar eftir að greiða inn á lánið og ákveður hvenær greiðsla skuli fara fram. Hægt er að biðja um að greiða samdægurs eða á ákveðnum degi. Þú getur líka samið um fastar greiðslur, til dæmis á 6 til 12 mánaða tímabili.
HMS sendir valgreiðslukröfu inn á heimabankann þinn.
Þú greiðir kröfuna og sérð greiðsluyfirlit á Mínum síðum á Ísland.is.
Uppgreiðsla lána
Þú skráir þig inn á lánavef HMS og velur að greiða upp lán. Þar finnurðu lánið og tiltekur upphæðina sem þú munt greiða.
Einnig er hægt að hafa samband við HMS í síma 440 6400 eða með tölvupósti, hms@hms.is.
Þú óskar eftir að greiða upp lánið.
HMS sendir greiðslukröfu inn á heimabankann þinn. Greiða þarf kröfuna samdægurs.
Þú greiðir kröfuna og sérð greiðsluyfirlit á Mínum síðum á Ísland.is.
HMS sendir lánið í aflýsingu hjá sýslumanni.
Þú færð frumrit skuldabréfs sent heim í bréfpósti að lokinni aflýsingu, innan 90 daga.
Greiðsla
Ef þú ákveður að hætta við innborgun eða uppgreiðslu fellur greiðslukrafan sjálfkrafa niður að 5 dögum liðnum. Lángreiðandi er ekki talinn vera í vanskilum þó að hætt hafi verið við greiðslu.
Ef greiða á samdægurs upphæð sem nemur meira en 10 milljónum króna þarf að greiða fyrir klukkan 16:00. Lægri greiðslur fara í gegn til klukkan 20:30.
Aðeins er send greiðslukrafa á lángreiðanda og meðgreiðanda eða umboðsaðila þeirra.
Afborganir og umframgreiðslur
Mikilvægt er að hafa í huga að þegar þú greiðir upphæð inn á lán, er um að ræða greiðslu umfram venjulegar afborganir á láninu. Umframgreiðslu er venjulega ætlað að lækka höfuðstól lánsins, eða það sem þú átt eftir að borga af láninu (nafnverð og vexti) auk verðbóta sem fallið hafa á það ef lánið er verðtryggt.
Þegar lángreiðandi greiðir bæði afborgun og umframgreiðslu þarf að gæta þess að borga venjulegu afborgunina fyrst, til dæmis fyrsta dag mánaðarins og umframgreiðsluna strax á eftir. Þannig nýtist umframgreiðslan sem best til að greiða niður höfuðstól og fer ekki í að borga niður áfallna vexti frá gjalddaga, eða afborgunina sjálfa.
Dæmi
Þú greiðir hefðbundnu afborgunina fyrsta dag mánaðar en umframgreiðsluna ekki fyrr en sjötta dag sama mánaðar. Þá fer hluti umframgreiðslunnar í að borga áfallna vexti þessa sex daga sem liðnir eru af mánuðinum.
Ef þú greiðir umframgreiðsluna á undan hefðbundnu greiðslunni þá fer hún í að lækka afborgunina og hefðbundna afborgunin lækkar sem því nemur.
Ef þú vilt tryggja að umframgreiðslan nýtist sem best til að lækka höfuðstól, greiðirðu hefðbundnu afborgunina fyrst, til dæmis fyrsta dag mánaðar, og umframgreiðsluna strax samdægurs eða daginn eftir.
Viðbótarlífeyrissparnaður
Ef þú vilt nýta viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á höfuðstól láns má finna upplýsingar og umsókn á Leiðrétting.is.
Uppgreiðslugjald
Sum lán eru með uppgreiðslugjald (lán tekin á árunum 2003-2014). Þá leggst uppgreiðslugjaldið við heildargreiðsluna. Upplýsingar um uppgreiðslugjald koma fram á veðlánayfirliti lánsins.
Ráðgjafi HMS veitir einnig upplýsingar um upphæð gjalds þegar óskað er eftir uppgreiðslu láns eða innborgun.
Dæmi
Þú óskar eftir að greiða 1 milljón króna inn á lánið. Uppgreiðslugjald er 1%, eða 10 þúsund krónur, sem þú greiðir á meðan 990 þúsund krónur greiðast inn á raunverulegan höfuðstól.
Hlutdeildarlán
Hlutdeildarlán eru ólík öðrum lánum þar sem ekki eru mánaðarlegar greiðslur né vextir heldur greiðir þú lánið til baka eftir 10-25 ár eða þegar þú selur íbúðina. Hér eru upplýsingar um skilmála hlutdeildarlána.
Þjónustuaðili
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun