Aukum samfellu, öryggi og gæði heilbrigðisþjónustu
Embætti landlæknis er þátttakandi í Evrópuverkefninu EU4Health. Markmið þess er að stuðla að betri og öruggari heilbrigðisþjónustu í Evrópu, meðal annars með því að auka rafrænt aðgengi að sjúkraskrárupplýsingum yfir landamæri.
Um er að ræða nýja stafræna þjónustu innan Evrópu sem verður innleidd í skrefum í 25 ESB-löndum, ásamt Íslandi og Noregi, fram til ársloka 2025. Upplýsingar um hvaða lönd hafa innleitt þjónustuna má nálgast á vef verkefnisins Electronic cross-border health services. Stefnt er að því að Ísland muni geta tekið við sjúkraskrárupplýsingum frá öðrum Evrópulöndum eigi síðar en vorið 2025. Þá munu íslenskar heilbrigðisstofnanir einnig geta miðlað sjúkraskrárupplýsingum til annarra Evrópulanda eigi síðar en í ágúst 2025.
Um er að ræða samantekt á heilsufarsupplýsingum úr sjúkraskrá, rannsóknarniðurstöðum og rafrænum lyfseðlum sem einstaklingur getur heimilað heilbrigðisstarfsmanni í öðru Evrópulandi aðgang að þurfi hann að leita sér heilbrigðisþjónustu þar. Í lok árs 2026 bætist við aðgangur að niðurstöðum myndgreininga, ásamt myndunum sjálfum og útskriftarnótu af sjúkrahúsi. Einstaklingar munu geta nálgast eigin heilbrigðisupplýsingar á mínum síðum í Heilsuveru.
Samantekt heilsufarsupplýsinga er stutt skjal sem veitir mikilvægar heilsufarsupplýsingar um einstakling. Það inniheldur meðal annars eftirfarandi upplýsingar:
Sjúkdómsgreiningar
Ofnæmi og lífsógnandi sjúkdóma
Yfirlit yfir núverandi lyf
Ígræði, t.d. hjartagangráður og bjargráður
Bólusetningar
Nýlegar meðferðir
Meðgöngu
Þessi samantekt tryggir að heilbrigðisstarfsmaður sem sinnir sjúklingi utan heimalands hafi aðgang að mikilvægum og réttum sjúkraskrárupplýsingum um sjúkling og geti þar með veitt samfellda og örugga heilbrigðisþjónustu. Upplýsingarnar eru kóðaðar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og aðgengilegar heilbrigðisstarfsmanni á eigin tungumáli. Upplýsingar um hvaða lönd bjóða þjónustuna á hverjum tíma má nálgast á vef verkefnisins.
Auk miðlunar á samantekt heilsufarsupplýsinga verður miðlun rafrænna lyfseðla möguleg á milli þeirra Evrópulanda sem tengst hafa öruggri samskiptagátt Evrópusambandsins (ESB).
Þannig verður hægt að leysa út rafrænan lyfseðil frá Íslandi ef einstaklingur er staddur í öðru Evrópulandi, í þeim apótekum sem eru þátttakendur í verkefninu.
Einnig munu erlendir ríkisborgarar, sem eiga rafrænan lyfseðil frá sínu heimalandi og eru staddir á Íslandi, geta fengið lyfseðilinn afgreiddan í apóteki hérlendis.
Upplýsingar um hvaða lönd bjóða þjónustuna á hverjum tíma má nálgast á vef verkefnisins.
Embætti landlæknis hefur sett upp og rekur örugga stafræna samskiptagátt sem tengist samskiptagátt Evrópusambandsins. Þetta er gert til þess að miðlun heilbrigðisupplýsinga innan ESB landa geti farið fram á öruggan, tímanlegan og skilvirkan hátt. Skilyrði allra þátttökulanda í Evrópu til að tengjast öruggu samskiptagáttinni er að uppfylla strangar kröfur um öryggi og vernd persónuupplýsinga.
Þú þarft að samþykkja að heilbrigðisstarfsmaður, sem starfar í öðru Evrópulandi en þínu heimalandi megi nálgast samantekt þinna heilsufarsupplýsinga og rafræna lyfseðla.
Til þess að veita heimild þarft þú að skrá þig inn á island.is með rafrænum skilríkjum og undirrita heimild, þar sem þú samþykkir miðlun þinna heilsufarsupplýsinga. Möguleiki er að velja ákveðið tímabil eða ákveðið land þar sem samþykkið gildir.
Meðhöndlun og vernd persónuupplýsinga verður ávallt í samræmi við gildandi ESB-löggjöf og starfsvenjur, bæði í þínu búsetulandi og dvalarlandi. Að auki á heilbrigðisstarfsmaður að upplýsa þig um réttindi þín áður en hann nálgast gögnin þín.