Fara beint í efnið

Dvalarleyfi fyrir foreldra og börn sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi fyrir 1. ágúst 2021

Frestur til að sækja um þetta dvalarleyfi er liðinn.

Foreldrar og börn þeirra, sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi fyrir 1. ágúst 2021 og eru enn á landinu, eiga rétt á dvalarleyfi samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga um útlendinga.

Rétturinn nær til forsjáraðila og barna þeirra, yngri en 18 ára, sem

  • sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi fyrir 1. ágúst 2021 og eru enn á landinu, eða

  • fæddust á Íslandi á meðan umsókn forsjáraðila um alþjóðlega vernd, sem barst fyrir 1. ágúst 2021, var í vinnslu.

Áður en sótt er um

Nauðsynlegt er að þú byrjir á að kynna þér

Umsókn

Umsókn verður að berast Útlendingastofnun fyrir 5. júlí 2023.

Athugið að aðeins þarf að fylla út eina umsókn fyrir hverja fjölskyldu.

Umsóknum er aðeins hægt að skila á pappírsformi, annað hvort í afgreiðslu Útlendingastofnunar að Dalvegi 18 í Kópavogi, í þar til gerðan skilakassa í anddyri stofnunarinnar eða með því að senda umsókn í bréfpósti á sama heimilisfang. Einnig er hægt að leggja inn umsóknir hjá embættum sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins.

Umsókn skal vera í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.

Kostnaður

Ekki þarf að greiða afgreiðslugjald fyrir fyrstu umsókn um dvalarleyfi fyrir foreldra og börn sem sótt um alþjóðlega vernd fyrir 1. ágúst 2021. Greiða þarf fyrir umsókn um endurnýjun.

Lög

Dvalarleyfið er veitt á grundvelli 22. greinar laga um breytingu á lögum um útlendinga.

Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar segir um ákvæðið:

"Heimsfaraldur kórónuveiru gerði yfirvöldum erfitt um vik að framkvæma endanlegar ákvarðanir stjórnvalda um brottvísanir og frávísanir samkvæmt lögum um útlendinga. Í landinu er því nokkur hópur barna og forsjáraðila þeirra sem hafa dvalist hér um lengri tíma í ólögmætri dvöl. Stjórnvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi fjölskyldur uppfylla ekki skilyrði laganna til að fá alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með hliðsjón af þeirri sérstöku stöðu sem er komin upp þykir þó rétt, í stað þess að framkvæmdar verði brottvísanir eða frávísanir í þessum málum, að opnað sé tímabundið á möguleika forsjáraðila þessara barna til að sækja um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli atvinnuþátttöku en þeim dvalarleyfum fylgja dvalarleyfi fyrir börn þeirra.

Meiri hlutinn leggur því til nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem rakin eru þau skilyrði sem uppfylla þarf til að geta fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli þess. Í ljósi þeirrar sérstöku stöðu sem þessir útlendingar eru í er óhjákvæmilegt að við fyrstu umsókn verði vikið frá kröfu laganna um að umsækjandi sýni fram á trygga framfærslu hans og fjölskyldu. Auk þess verður ekki innheimt gjald vegna fyrstu umsókna en það nemur nú 15 þúsund krónum fyrir hverja umsókn. Með þessu úrræði fara viðkomandi einstaklingar úr kerfi stjórnvalda, sem ætlað er umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttafólki, í þá stöðu sem gildir um aðra þriðja ríkis borgara sem koma hingað til lands á grundvelli atvinnuþátttöku. Það er því á ábyrgð forsjáraðila að útvega sér atvinnu hér á landi, örugga sjúkratryggingu og eigið húsnæði að ákveðnum tíma liðnum. Þá ber viðkomandi, við endurnýjun leyfisins, að uppfylla almenn skilyrði laga um útlendinga líkt og gildir um aðra dvalarleyfishafa.

Þá er lagt til að dvalarleyfinu fylgi undanþága frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi skv. 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Handhafi slíks leyfis fær því um leið heimild til þess að starfa hér á landi."

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun