Börn á Íslandi fá alls konar bólusetningar til að vernda þau fyrir sjúkdómum. Sóttvarnalæknir ákveður fyrir Ísland hvernig er best að nota bólusetningar og aðrar leiðir til að vernda fólk gegn sjúkdómum sem smitast milli manna. Sóttvarnalæknir hefur boðið börnum, unglingum og fullorðunum bólusetningu gegn COVID-19 til að minnka líkurnar á að veikjast illa af COVID-19.
Hér fyrir neðan eru spurningar og svör um bólusetningar við COVID-19. Það getur verið gott að skoða þau og velta þeim fyrir sér áður en þú ákveður með fólkinu þínu hvort þú ferð Í bólusetninguna.
5-11 ára. Af hverju þarf ég sprautu við COVID-19?
COVID-19 er veiki vegna kórónuveiru. Langflest börn verða ekki alvarlega veik þó þau fái COVID-19 en þurfa samt að gæta þess að smita engan annan.
Bólusetning við COVID-19 er gerð þannig að bóluefni er sprautað í handlegginn á fólki. Bóluefnið er vökvi í lítilli sprautu. Það sýnir líkamanum hvernig veiran er í laginu. Ónæmiskerfið í líkamanum, það sem lætur okkur batna þegar við veikjumst, getur þá lært að þekkja veiruna án þess að við verðum veik. Þá er ónæmiskerfið mjög fljótt að byrja að hreinsa veiruna úr líkamanum ef við fáum hana í okkur og minni hætta á að fá COVID-19 þótt við hittum einhvern með COVID-19.
Til að klára bólusetningu við COVID-19 þarf tvær bólusetningar, það líða nokkrar vikur á milli þeirra. Kannski þarf svo aftur bólusetningu seinna til að hjálpa ónæmiskerfinu að muna betur hvernig veiran sem veldur COVID-19 er í laginu, það er kallað örvunarbólusetning.
Eftir bólusetninguna er minni hætta á að þú fáir COVID-19 sjúkdóminn. Flest börn verða lítið veik af COVID-19. Bólusetningin getur hjálpað þér að sleppa við COVID-19. Þau sem fá COVID-19 þótt þau hafi fengið bólusetningu verða minna veik en þau sem fengu ekki bólusetningu. Veirurnar eru líka fljótari að hreinsast úr nefinu á þeim sem eru bólusett og þess vegna er minni hætta á að þau smiti aðra af COVID-19.
Það er hægt að fá COVID-19 aftur. Þess vegna er mælt með að fá bólusetningu þó þú hafir fengið COVID-19, en ekki fyrr en það hafa liðið þrír mánuðir frá því að þú greindist með COVID-19.
Heilsugæslan gefur bólusetninguna. Foreldri eða aðrir fullorðnir í kringum þig ákveða með þér hvort þú færð bólusetninguna. Það þarf einhver fullorðinn að koma með og sitja hjá þér meðan þú færð bólusetninguna og í smástund á eftir.
Flestir sitja þegar bólusetningin er gerð en það má líka biðja um að fá að liggja, sérstaklega ef þér hefur áður liðið illa í sprautu. Þú mátt ráða í hvorn handlegginn er sprautað.
Þegar bólusetningin er búin þarf að bíða í 15 mínútur áður en má fara heim.
Að fá sprautu er svolítið eins og þegar einhver klípur mann. Stundum er handleggurinn aðeins aumur í einn eða tvo daga á eftir.
Aukaverkun er þegar lyf gerir eitthvað meira en bara það sem það á að gera, oftast eitthvað óþægilegt. Til dæmis getur manni orðið illt í maganum ef maður tekur lyf við hita en hitinn lagast samt.
Bólusetningar gegn COVID-19 valda oft aukaverkunum. Algengustu aukaverkanirnar eru óvenjulega mikil þreyta, verkur í handleggnum, hiti og höfuðverkur. Svona aukaverkanir eftir COVID-19 bólusetningu lagast hjálparlaust á nokkrum dögum en stundum hjálpar að hvíla sig eða fá meðal við hita eða verk. Það þarf mjög sjaldan hjálp frá lækni til að aukaverkanir eftir bólusetningu lagist.
Ef þér líður illa stuttu eftir bólusetninguna, talaðu um það við einhvern fullorðinn sem þú treystir, t.d. foreldra þína eða skólahjúkrunarfræðinginn.
12-15 ára. Af hverju þarf ég sprautu við COVID-19?
COVID-19 er mjög smitandi veirusýking (en veiran heitir SARS-CoV-2). Langflest börn verða ekki alvarlega veik af COVID-19. Ung börn og krakkar á Íslandi fá alls konar bólusetningar til að vernda þau fyrir sjúkdómum. Sóttvarnalæknir býður krökkum bólusetningu til að minnka líkurnar á að þau veikist af COVID-19.
Eins og þegar fullorðið fólk fær bólusetningu þá þurfa krakkar líka að hugsa málið vel, því það er eðlilegt og skynsamlegt að velta hlutunum fyrir sér. Hér fyrir neðan eru spurningar og svör um bólusetningu við COVID-19 til að hjálpa þér að taka þína ákvörðun.
Sprautan er með bóluefni til að koma í veg fyrir veikindi ef maður smitast af COVID-19. Lang flest börn og unglingar sem fá COVID-19 verða ekki alvarlega veik en það getur verið mjög erfitt fyrir suma að fá sjúkdóminn. Bóluefni minnkar líkur á að fá alvarlegan sjúkdóm og að þurfa að leggjast inn á spítala.
Þegar maður smitast af COVID-19 er mikilvægt að fara varlega, hugsa vel um sig og passa að smita ekki aðra.
Algeng einkenni eru hiti, hósti, hálsbólga en einnig magaverkir og niðurgangur. Margir verða þreyttir og fá verki í bein og vöðva. Oft eru þessi einkenni ekki mikil.
Sumir finna breytingu á lyktar- og bragðskyni þannig að matur er skrítinn á bragðið eða maður finnur ekki bragð.
Stundum verða algengu einkennin mikil og sumir verða meira veikir og finnst þá erfitt að anda eða fá lungnabólgu og þurfa að fara á spítala. Það hefur gerst að börn og unglingar fái alvarlegan sjúkdóm eftir COVID-19, en það hefur þó enn ekki gerst hér á Íslandi. Með því að bólusetja við COVID-19 eru minni líkur á að þetta geti gerst.
Flestum batnar á 1–2 vikum eftir smit. Sumir fullorðnir og sum börn og unglingar fá það sem er kallað langtíma COVID-19. Þá tekur margar vikur eða marga mánuði að jafna sig alveg eftir veikindin. Þetta getur gerst þótt COVID-19 veikindin hafi ekki verið mikil. En það er margt sem er ekki ennþá vitað um þetta.
Þeir sem finna fyrir þessu geta haft margskonar einkenni, eins og
erfitt að hugsa og einbeita sér
þreyta og kraftleysi
kvíði og jafnvel þunglyndi
Það er hægt að fá hjálp til að líða betur frá sérfræðingum eins og læknum og sálfræðingum.
Bóluefni frá fyrirtækinu Pfizer / BioNTech er notað hér á landi fyrir 12–15 ára. Bóluefnið er talið öruggt fyrir þennan aldur og hefur fengið leyfi hjá Lyfjastofnun til að nota hjá börnum. Þetta bóluefni er gefið börnum í mörgum löndum.
Bóluefnin eru ný lyf en það eru búið að rannsaka þau mjög vel og gefa þau milljónum fullorðinna og barna. Aukaverkanir eru sjaldgæfar og þau eru talin mjög örugg. Vísindamenn vita að það öruggara að fá bólusetningu heldur en COVID-19 sjúkdóminn, og þess vegna er börnum og fullorðnum boðin sprauta.
Þú þarf að tala um það við foreldra þína og þið að ákveða það saman. Enginn er samt neyddur til að fá sprautu sem vill það ekki.
Hjá heilsugæslunni.
Forsjáraðili (mamma, pabbi eða annar fullorðinn sem ber ábyrgð á þér samkvæmt lögum) þarf að koma með þér ef þú ert ekki orðinn 16 ára.
Það er sprautað í handlegginn við öxlina. Þú ræður hvoru megin. Flestir sitja þegar bólusetningin er gerð en það má líka biðja um að fá að liggja.
Þú hefur kannski fengið sprautu (bólusetningu) áður og þessi sprauta er lík því. Flestum finnst það ekki vont en kannski smá óþægilegt. Það tekur mjög stuttan tíma að gefa sprautuna.
Það getur verið gott að sitja á höndunum eða sitja á annarri hendinni og halda í hendi þess sem er með þér eða halda á bolta eða einhverju til að kreista. Það er minna óþægilegt að fá sprautu ef sá handleggur er afslappaður, kannski hjálpar að ímynda sér að hann sé sofandi. Fyrir marga er best að horfa í hina áttina og reyna að hugsa um eitthvað annað.
Ef þér líður illa á undan eða eftir sprautuna er mikilvægt að þú látir vita.
Þegar sprautan er búin þarf að bíða í 15 mínútur því sumir hafa ofnæmi fyrir sprautunni og fá þá einkenni (útbrot og kláði, rauðar eða bólgnar varir/tunga, yfirlið, uppköst eða erfitt að anda). Hjúkrunarfræðingar á staðnum munu hjálpa ef slíkt gerist.
Algengt er að fá óþægindi í handlegginn eftir bólusetninguna eða hita, höfuðverk og verki í líkamann (bein- eða vöðvaverki). Einnig verða sumir þreyttir í einn eða tvo daga. Þessar aukaverkanir gerast oftar eftir seinni sprautuna. Nota má verkjalyf ef þarf.
Það eru sjúkdómar sem kallast hjartabólgur sem eru mjög sjaldgæfir en hafa gerst eftir bólusetningu hjá ungu fólki, drengjum frekar en stúlkum. Flestir hafa jafnað sig fljótt og vel.
Það er verið að skoða hvort breytingar á tíðahring, bæði litlar eða miklar blæðingar, hafi tengsl við bólusetningu með þessu bóluefni. Þetta er því ekki vitað enn. Aðrar hugsanlegar breytingar á hormónastarfsemi hafa ekki komið fram.
Einkenni, fylgikvillar og hugsanleg langtíma COVID-19 eru talin verri en aukaverkanir bólusetningar og þess vegna er mælt með bólusetningu.
Nei það er ekki talið hættulegt, aukaverkanir eru fáar og alvarlegar aukaverkanir mjög sjaldgæfar. Það er talið verra að fá COVID-19 sjúkdóminn.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis