Upplýsingar félagsmanna og meðferð persónuupplýsinga
Tilgangur þarf að liggja fyrir
Við skráningu persónuupplýsinga félagsmanna hjá stjórnmálasamtökum verður að liggja skýrt fyrir hver tilgangur skráningar er og hvernig upplýsingarnar verða notaðar. Sem dæmi verður við skráningu netfanga að liggja fyrir hvort þau verða notuð til að senda félagsmönnum tölvupóst eða hvort nota eigi netföngin til að ná til þeirra á samfélagsmiðlum. Auk þess þarf að vera skýrt hver eða hverjir mega nota persónuupplýsingarnar.
Andmæli
Einstaklingar eiga rétt á að andmæla vinnslu á persónuupplýsingum og þau andmæli ber að virða. Þá geta einstaklingar einnig verið bannmerktir í þjóðskrá og ber þeim sem vinna með upplýsingarnar að bera lista sína saman við bannskrána áður en hafist er handa við markaðssetningu. Þá hefur Fjarskiptastofa gefið út leiðbeiningar vegna óumbeðinna fjarskipta í aðdraganda kosninga.
Leiðbeiningar vegna óumbeðinna fjarskipta í aðdraganda kosninga
Heimildir stjórnmálasamtaka
Almennt verður talið að stjórnmálasamtök hafi lögmæta hagsmuni af því að nota persónuupplýsingar um skráða félagsmenn sína til að beina til þeirra skilaboðum í aðdraganda kosninga. Á hinn bóginn mega stjórnmálasamtök ekki afhenda eða miðla til þriðja aðila, svo sem samfélagsmiðla, persónuupplýsingum félagsmanna sinna án þess að fyrir liggi afdráttarlaust og upplýst samþykki þeirra fyrir því hvaða persónuupplýsingum þeirra megi miðla, hvert og í hvaða tilgangi. Hlýst það m.a. af því að þegar stjórnmálasamtök miðla upplýsingum um félagsmenn sína felst í því miðlun upplýsinga um aðild að stjórnmálasamtökum sem teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga.
Upplýsingaskylda
Með hliðsjón af eðli umræddra persónuupplýsinga og tilgangi vinnslu þeirra í kringum kosningar verður að gera ríkar kröfur til gagnsæis við vinnsluna og viðeigandi fræðslu. Í því felst að stjórnmálasamtökum ber að veita félagsmönnum sínum upplýsingar um hvaða persónupplýsingar unnið er með, tilgang vinnslunnar og lagagrundvöll, hvernig persónuupplýsingar hafa verið fengnar, ef ekki hjá hinum skráðu sjálfum og, ef við á, hverjir eru eða kunna að vera viðtakendur upplýsinganna.