Einstaklingar sem hafa samþykkta umsókn um atvinnuleysisbætur á Íslandi geta haldið bótunum í öðru EES-landi í allt að þrjá mánuði.
Skilyrði eru að:
ætla í virka atvinnuleit í Evrópu,
fá greiddar atvinnuleysisbætur á Íslandi, hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í fjórar vikur fyrir brottför,
vera með ríkisborgararétt í EES-ríki,
vera á Íslandi fram að brottfarardegi sem umsækjandi setur í umsóknina.
Austurríki
Belgía
Bretland: Ísland hefur gert samning við Bretland eftir útgöngu þess úr ESB um samhæfingu almannatryggingakerfa.
Búlgaría
Danmörk
Finnland
Frakkland
Grikkland
Holland
Írland
Ísland
Ítalía
Króatía
Kýpur
Lettland
Liechtenstein
Litáen
Lúxemborg
Malta
Noregur
Pólland
Portúgal
Rúmenía
Slóvakía
Slóvenía
Spánn
Svíþjóð
Tékkland
Ungverjaland
Þýskaland
3 mánuðir
U2-vottorðið er alltaf gefið út til 3 mánaða og það er ekki hægt að framlengja það tímabil.
Sami réttur og á Íslandi
Vottorðið gefur sama rétt til atvinnuleysisbóta og á Íslandi. Ef einstaklingur á minna eftir af bótatímabili sínu en þrjá mánuði fær viðkomandi ekki greitt umfram bótatímabilið.
Sækja um
Sótt er um á Mínum síðum Vinnumálastofnunar. Sækja þarf um 3 vikum fyrir brottför.
Umsækjendur fá tölvupóst þegar vottorðið hefur verið samþykkt. Í þeim pósti kemur fram hvaða dag vottorðið tekur gildi.
Innan 7 virkra daga frá því að U2-vottorðið tekur gildi þarf að skrá sig sem atvinnuleitanda í dvalarlandinu.
Skráningin fer fram á ríkisrekinni vinnumiðlun í dvalarlandinu, sambærilegri og Vinnumálastofnun á Íslandi.
Vinnumiðlunin staðfestir dagsetninguna sem einstaklingurinn skráði sig í atvinnuleit og sendir upplýsingarnar til Vinnumálastofnunar á Íslandi.
Upphafsdagur bóta
Ef skráning tekst innan 7 virkra daga fær einstaklingur bætur frá því U2-vottorðið tekur gildi. Ef það næst ekki, reiknast bætur í fyrsta lagi frá skráningardeginum í landinu.
Skráning tókst ekki
Ef einstaklingur gat ekki skráð sig í fyrsta skipti sem haft var samband við vinnumiðlunina í dvalarlandinu þarf að fá staðfestingu frá erlendum yfirvöldum um að leitað hafi verið til vinnumiðlunar til þess að reyna skráningu.
Vinnumálastofnun heldur áfram að greiða atvinnuleysisbætur meðan leitað er að vinnu. Greidd er sama upphæð og greidd var á Íslandi og inn á íslenskan bankareikning.
Staðfesta atvinnuleit
Atvinnuleit er staðfest eins og áður, milli 20. - 25. dags hvers mánaðar, á Mínum síðum Vinnumálastofnunar.
Reglur
Opinber vinnumiðlun í dvalarlandinu setur reglur og skilyrði fyrir þau sem eru atvinnulaus og í atvinnuleit. Reglur um hvað telst vera virk atvinnuleit eru mismunandi milli landa. Einstaklingur með U2 vottorð þarf að fylgja þessum reglum.
Vinnumiðlunin sendir Vinnumálastofnun á Íslandi upplýsingar um hvort viðkomandi sé virkur í atvinnuleit.
Vinnumálastofnun getur ekki tekið fyrir kvartanir vegna ákvarðana sem teknar eru í öðrum EES-ríkjum.
Þegar byrjað er í vinnu í dvalarlandinu þarf að afskrá sig af atvinnuleysisbótum á Mínum síðum Vinnumálastofnunar.
Ekki réttur til bóta
Einstaklingar sem fá vinnu í öðru EES-ríki eiga ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum frá Íslandi.
Í hlutastarfi
Ef einstaklingur fær hlutastarf á meðan U2-vottorðið er í gildi á vinnumiðlunun í dvalarlandinu að upplýsa Vinnumálastofnun um starfið. Viðkomandi getur þá fengið greiddar hlutabætur á vottorðstímabilinu samhliða hlutastarfinu.
Til þess að fá aftur rétt til atvinnuleysisbóta á Íslandi verður að koma aftur til Íslands áður en U2-vottorðið rennur út.
Þegar komið er aftur til Íslands þarf að staðfesta komu til landsins innan 7 virkra daga. Annars þarf að ávinna sér rétt á nýju tímabili atvinnuleysisbóta.
Einstaklingar staðfesta komu til Íslands með því að mæta á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar með persónuskilríki og brottfararspjald úr fluginu.
Það verður að tilkynna komu til Íslands þó að einstaklingur ætli ekki að fá atvinnuleysisbætur áfram.
Áður en farið er frá dvalarlandinu þarf að afskrá sig hjá vinnumiðluninni í því landi.
Hætt við
Ef hætt er við að nota vottorð verður að láta Vinnumálastofnun vita um leið.
Ef vottorðið hefur verið gefið út þarf að mæta á næstu þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til þess að staðfesta að vera á Íslandi.
Ef ekki er búið að gefa vottorðið út verður samt sem áður að láta Vinnumálastofnun vita strax. Það er gert með því að senda tölvupóst á: uvottord@vmst.is.
Endurnýjun
Það er hægt að fá U2-vottorð útgefið aftur.
Skilyrði eru að liðnir séu 6 mánuðir frá lokum fyrra tímabils atvinnuleysisbóta. Umsækjandi þarf að hafa starfað á þeim tíma á íslenskum vinnumarkaði í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli, í 3 mánuði eða lengur.
Starfið má ekki hafa verið hluti af vinnumarkaðsaðgerðum, svo sem ráðningarstyrk. Starfið þarf að uppfylla ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Eftir nám í öðru EES-landi
Ef þú ert námsmaður sem er að koma til Íslands eftir að hafa lokið námi erlendis, ert atvinnulaus og með rétt til atvinnuleysisbóta í landi innan EES, getur þú tekið með þér U2-vottorð sem veitir þér rétt til þess að halda atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði á meðan þú ert að leita þér að vinnu á Íslandi.
Eftir atvinnuleysi í öðru EES-landi
Sækja þarf um atvinnuleysisbætur í viðkomandi EES-ríki, fá útgefið U2-vottorð frá því og uppfylla önnur skilyrði sem það ríki hefur vegna atvinnuleysisbóta til þess að eiga rétt á greiðslum atvinnuleysisbótum samkvæmt U2 meðan atvinnuleit stendur yfir á Íslandi.
Ef þú ert atvinnulaus og með rétt til atvinnuleysisbóta í landi innan EES getur þú tekið með þér U2 vottorð til Íslands sem veitir þér rétt til þess að halda atvinnuleysisbótum frá EES-ríkinu í allt að þrjá mánuði á meðan þú ert að leita þér að vinnu á Íslandi.