U2 vottorð vegna atvinnuleitar í EES-landi
Einstaklingar sem hafa samþykkta umsókn um atvinnuleysisbætur á Íslandi geta haldið bótunum í öðru EES-landi í allt að þrjá mánuði.
Skilyrði eru að:
ætla í virka atvinnuleit í Evrópu,
fá greiddar atvinnuleysisbætur á Íslandi, hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í fjórar vikur fyrir brottför,
vera með ríkisborgararétt í EES-ríki,
vera á Íslandi fram að brottfarardegi sem umsækjandi setur í umsóknina.
3 mánuðir
U2-vottorðið er alltaf gefið út til 3 mánaða og það er ekki hægt að framlengja það tímabil.
Sami réttur og á Íslandi
Vottorðið gefur sama rétt til atvinnuleysisbóta og á Íslandi. Ef einstaklingur á minna eftir af bótatímabili sínu en þrjá mánuði fær viðkomandi ekki greitt umfram bótatímabilið.
Sækja um
Sótt er um á Mínum síðum Vinnumálastofnunar. Sækja þarf um 3 vikum fyrir brottför.
Umsækjendur fá tölvupóst þegar vottorðið hefur verið samþykkt. Í þeim pósti kemur fram hvaða dag vottorðið tekur gildi.
Hætt við
Ef hætt er við að nota vottorð verður að láta Vinnumálastofnun vita um leið.
Ef vottorðið hefur verið gefið út þarf að mæta á næstu þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til þess að staðfesta að vera á Íslandi.
Ef ekki er búið að gefa vottorðið út verður samt sem áður að láta Vinnumálastofnun vita strax. Það er gert með því að senda tölvupóst á: uvottord@vmst.is.
Endurnýjun
Það er hægt að fá U2-vottorð útgefið aftur.
Skilyrði eru að liðnir séu 6 mánuðir frá lokum fyrra tímabils atvinnuleysisbóta. Umsækjandi þarf að hafa starfað á þeim tíma á íslenskum vinnumarkaði í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli, í 3 mánuði eða lengur.
Starfið má ekki hafa verið hluti af vinnumarkaðsaðgerðum, svo sem ráðningarstyrk. Starfið þarf að uppfylla ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Eftir nám í öðru EES-landi
Ef þú ert námsmaður sem er að koma til Íslands eftir að hafa lokið námi erlendis, ert atvinnulaus og með rétt til atvinnuleysisbóta í landi innan EES, getur þú tekið með þér U2-vottorð sem veitir þér rétt til þess að halda atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði á meðan þú ert að leita þér að vinnu á Íslandi.
Eftir atvinnuleysi í öðru EES-landi
Sækja þarf um atvinnuleysisbætur í viðkomandi EES-ríki, fá útgefið U2-vottorð frá því og uppfylla önnur skilyrði sem það ríki hefur vegna atvinnuleysisbóta til þess að eiga rétt á greiðslum atvinnuleysisbótum samkvæmt U2 meðan atvinnuleit stendur yfir á Íslandi.
Ef þú ert atvinnulaus og með rétt til atvinnuleysisbóta í landi innan EES getur þú tekið með þér U2 vottorð til Íslands sem veitir þér rétt til þess að halda atvinnuleysisbótum frá EES-ríkinu í allt að þrjá mánuði á meðan þú ert að leita þér að vinnu á Íslandi.
Þjónustuaðili
Vinnumálastofnun