Dánarorsakir - tölur
Skráning dánarorsaka og túlkun talna
Túlkun talna
Tölur um dánarorsakir eru meginuppspretta upplýsinga við skipulag og mat á heilbrigðisþjónustu. Þær eru einnig aðgengilegustu upplýsingarnar þegar heilbrigðisvandamál eru til skoðunar. Tölur um dánarorsakir verður þó ávallt að túlka með gát þegar um samanburð í tíma eða á milli landa er að ræða, m.a. vegna mismunandi aldurssamsetningar og breytinga sem geta orðið á þeim alþjóðlegu reglum, sem unnið er eftir við skráningu dánarorsaka af dánarvottorðum.
Ritun dánarvottorða
Tölfræði um dánarorsakir byggir á dánarvottorðum þar sem tilgreindir eru sjúkdómar, áverkar og kringumstæður sem valdið hafa dauða. Embætti landlæknis gefur út eyðublöð fyrir dánarvottorð. Fjallað er um ritun dánarvottorða í lögum nr. 61/1998 um dánarvottorð, krufningar o.fl. og í reglugerð nr. 248/2001. Greining dánarorsaka og ritun dánarvottorða er í höndum þeirra lækna sem að málinu koma.
Skráning dánarorsaka
Við skráningu í dánarmeinaskrá embættis landlæknis er sérhvert dánarvottorð vandlega yfirfarið, skráð og kóðað samkvæmt gildandi útgáfu hins alþjóðlega flokkunarkerfis sjúkdóma (International Classification of Diseases, ICD). Læknir fer síðan yfir vafatilvik og tiltekna flokka dánarorsaka. Til þess að auka enn á gæði og samræmi í skráningu er einnig stuðst við sérhæfðan hugbúnað til þess að benda á hvar kóðun embættisins er frábrugðin hinu alþjóðlega regluverki.
Erlendur samanburður
Ýmsar alþjóðlegar stofnanir annast söfnun og framsetningu á tölum um dánarorsakir. Ísland á aðild að slíku samstarfi og sendir meðal annars árlega gögn í alþjóðlegan gagnagrunn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO Global Mortality Database. Tölfræði úr þessum gagnagrunni má nálgast á aðgengilegan hátt í European Mortality Database, sem birtir árlega dánartíðni ýmissa fyrirfram skilgreindra flokka dánarorsaka í aðildarríkjum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þá birtir stofnunin enn fremur mælaborð þar sem skoða má dánarorsakir innan einstakra landa með aðgengilegum hætti.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis