Greiðsluþátttaka vegna tannlækninga
Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði við almennar tannlækningar barna að 18 ára aldri og lífeyrisþega í samræmi við samning um tannlækningar og með þeim takmörkunum sem þar koma fram.
Jafnframt taka Sjúkratryggingar þátt í kostnaði vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma og slysa. Sjá nánar reglugerð um tannlækningar.
Börn
Forsenda fyrir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga er að börn séu skráð hjá heimilistannlækni. Hægt er að skrá sig hjá heimilistannlækni á Mínum síðum undir Heilsa - Heilsugæsla.
Árlegt komugjald er 3.500 krónur.
Almennar tannviðgerðir
Sjúkratryggingar greiða allan kostnað fram að 18 ára aldri af bæði almennum tannviðgerðum og svæfingu í samræmi við samning um tannlækningar og með þeim takmörkunum sem þar koma fram.
Undanskilið er aðstöðugjald vegna tannviðgerða í svæfingu.
Undir almennar tannlækningar falla meðal annars skoðun, greining, röntgenmyndir, reglulegt eftirlit, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannholdslækningar og úrdráttur tanna.
Börn og ungmenni
Sjúkratryggingar greiða 100% vegna nauðsynlegra meðferða hjá tannlækni vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa sem upp koma fyrir 18 ára aldur en ekki er faglega rétt að sinna fyrr en eftir að fullum beinþroska er náð. Heimild þessi gildir þó að jafnaði ekki lengur en til 30 ára aldurs. Styrkur er veittur vegna úrdráttar endajaxla eftir að 18 ára aldri er náð.
Tannlæknir sendir Sjúkratryggingum umsókn rafrænt áður en meðferð hefst.
Lífeyrisþegar
Til lífeyrisþega teljast aldraðir og öryrkjar, þar með talið einstaklingar með endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun.
Sjúkratryggingar greiða 75% af almennum tannviðgerðum í samræmi við samning um tannlækningar og með þeim takmörkunum sem þar koma fram.
Undir almennar tannlækningar falla m.a. skoðun, greining, röntgenmyndir, reglulegt eftirlit, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannholdslækningar, úrdráttur tanna og laus tanngervi.
Laus tanngervi
Gómar
Sjúkratryggingar greiða 75% af bæði kostnað tannlæknis og tannsmiðs á sex ára fresti. Einnig er greitt fyrir fóðrun góma á þriggja ára fresti.
Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði við ísetningu allt að fyrstu fjögurra tannplanta í tannlausan efri góm og fyrstu tveggja tannplanta í tannlausan neðri góm.
Tannlæknir sendir Sjúkratryggingum umsókn rafrænt áður en meðferð hefst.
Föst tanngervi
Brýr
Vegna brúarsmíði á tannplanta í stað góma greiða Sjúkratryggingar samsvarandi upphæð og greidd er vegna gómasmíði en einstaklingur greiðir sjálfur umframkostnað.
Krónur eða tannplantar
137.1191 króna styrkur er veittur vegna tannplanta eða annars fasts tanngervis í tenntan góm framan við 12 ára jaxla á hverju 12 mánaða tímabili.
Þeir einstaklingar sem fullnýtt hafa styrk vegna smíði fastra tanngerva og tannplanta fyrir 1. júlí 2024 geta átt rétt á mismun á þessari fjárhæð og því sem þeir hafa áður fengið greitt, enda sé um nýja meðferð að ræða (á öðrum tönnum/tannstæðum en áður var styrkt) og sú meðferð veitt eftir 1. júlí 2024.
Ekki þarf að sækja um styrkinn. Tannlæknir lækkar reikninginn sem honum nemur.
Langveikir
Til langveikra teljast öryrkjar og aldraðir sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum,
Til langveikra teljast einnig andlega þroskahamlaðir með staðfesta sjúkdómsgreiningu F70-73 samkvæmt ICD-10. Sækja þarf um aukna greiðsluþátttöku til Sjúkratrygginga vegna þeirra.
Þeir sem falla undir þessa skilgreiningu eiga rétt á hærri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga.
Alvarlegar afleiðingar fæðingargalla, slysa og sjúkdóma
Ef um alvarlegar afleiðingar meðfæddra galla, sjúkdóma eða slysa í frístundum er að ræða, og slys er ekki greitt af tryggingafélagi, greiða Sjúkratryggingar 80% af umsaminni gjaldskrá og með þeim takmörkunum sem þar koma fram. Aðkeyptur tannsmíðakostnaður og rannsóknir greiðast í saman hlutfalli og vinna tannlæknis að ákveðnu hámarki.
Í alvarlegum tilvikum, sem tilgreind eru í reglugerð, greiða Sjúkratryggingar 95% kostnaðar, samkvæmt umsaminni gjaldskrá, með þeim takmörkunum sem þar koma fram.
Dæmi: skarð í efri tannboga, klofinn gómur, heilkenni (Craniofacial Syndromes/Deformities) sem getur valdið alvarlegri tannskekkju, meðfædd vöntun einnar eða fleiri framtanna eða augntanna í efri gómi eða vöntun tveggja samliggjandi fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla eða alvarlegt misræmi í vexti beina í höfuðkúpu og kjálka þar sem meðferð krefst kjálkafærsluaðgerðar.
Tannlæknir sendir Sjúkratryggingum umsókn rafrænt áður en meðferð hefst.
1 Verð miðast við gjaldskrá með gildistöku 1. júlí 2024. Hærra verð er greitt fyrir þá sem falla undir skilgreininguna langveikir.
Tannlækningar
Þjónustuaðili
Sjúkratryggingar