Þjónusta við umsækjendur um vernd
4. apríl 2022
Fjöldi umsækjenda um vernd sem á rétt á þjónustu hér á landi hefur nærri tvöfaldast frá því í byrjun marsmánaðar og er nú rúmlega 1400.
Útlendingastofnun veitir umsækjendum um vernd þjónustu á grundvelli tímabundins samnings við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem tók við ábyrgðinni á því að veita umsækjendum þjónustu við verkaskiptingu nýrrar ríkisstjórnar. Samningurinn gildir til 30. júní næstkomandi en þá mun verkefnið alfarið flytjast frá stofnuninni til ráðuneytisins.
Vegna mikillar fjölgunar umsækjenda um vernd í kjölfar stríðsátaka í Úkraínu gerðu Útlendingastofnun og félagsmálaráðuneytið með sér samkomulag um miðjan marsmánuð um að ráðuneytið tæki strax yfir ábyrgðina á því að afla búsetuúrræða fyrir umsækjendur. Sá þáttur þjónustunnar hefur því nú þegar flust yfir til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem notið hefur liðsinnis framkvæmdasýslu ríkisins við öflun búsetuúrræða undanfarnar vikur. Það er stór áskorun fyrir nýja aðila að koma að þessu verkefni á þessum fordæmalausu tímum þegar taka hefur þurft ný úrræði í notkun með örskömmum fyrirvara og tryggja þar viðeigandi aðbúnað.
Rúmur fjórðungur umsækjendanna (362) dvelur í úrræðum á vegum Reykjavíkurborgar, Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar sem veita þeim þjónustu á grundvelli samninga við Útlendingastofnun. Tæpur fjórðungur (338) dvelur í húsnæði á eigin vegum en á rétt á þjónustu frá Útlendingastofnun. Um það bil helmingur umsækjendanna (722) dvelur í búsetuúrræðum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og er þjónustaður af Útlendingastofnun.
Í þjónustu Útlendingastofnunar felst fyrst og fremst úthlutun húsnæðis til umsækjenda með tilliti til aðstæðna, þarfa og fjölskyldustærðar. Auk þess sér þjónustuteymi stofnunarinnar um að afhenda umsækjendum greiðslukort með framfærslufé, SIM kort, strætókort og hefur milligöngu um heilbrigðisþjónustu og ýmsa aðra þjónustu fyrir umsækjendur.
Gengið hefur verið frá ráðningum viðbótarstarfsfólks hjá stofnuninni til að tryggja viðveru starfsmanns í hverju úrræði á dagvinnutíma. Í hverju úrræði er auk þess öryggisvörður sem getur haft samband við bakvakt Útlendingastofnunar utan dagvinnutíma eða um helgar ef íbúa vanhagar um eitthvað.
Allir hlutaðeigandi aðilar vinna að því í sameiningu að vanda eins vel til verka og hægt er við móttöku og þjónustu umsækjenda um vernd.