Málstofa um innleiðingu stafræns deiliskipulags - Upptökur og glærur
13. júní 2024
Skipulagsstofnun stóð fyrir málstofu um innleiðingu stafræns deiliskipulags þann 7. júní síðastliðinn. Málstofan fór fram í húsakynnum stofnunarinnar í Borgartúni og var húsfyllir ásamt því að fjöldi fólks fylgdist með í streymi.
Mikill áhugi er fyrir innleiðingu stafræns deiliskipulags enda mun innleiðing þess hafa áhrif á vinnu við gerð deiliskipulags. Undirbúningur fyrir innleiðingu stafræns deiliskipulags hefur staðið yfir um nokkurt skeið en ákvæði skipulagslaga um gerð stafræns deiliskipulags tekur gildi 1. janúar 2025. Á fundinum komu fram ábendingar sem munu gagnast í áframhaldandi mótun á fyrirkomulagi starfræns deiliskipulags sem verður unnið í samráði við skipulagsfulltrúa og annað fagfólk. Fyrirhugað er að sniðmát muni liggi fyrir á haustmánuðum.
Ólafur Árnason, forstjóri Skipulagsstofnunar, opnaði dagskránna og þar sem hann lagði áherslu á að grípa þau tækifæri sem felast í gerð stafrænna deiliskipulagsgagna. Albert Þorbergsson frá Skipulagsstofnun sagði frá vinnu Skipulagsstofnunar við undirbúning og mótun tillögu að gagnahögun stafræns deiliskipulags en lagt er upp með að einfalda útfærslu á stafrænum gögnum í upphafi sem mun svo þróast áfram. Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri á sviði fasteigna hjá Húsnæðis og mannvirkjastofnun, sagði frá tækifærum við að tengja stafrænt deiliskipulag við önnur gögn HMS. Að lokum fór Þórarinn Jón Jóhannsson, verkefnisstjóri landupplýsinga á umhverfis-og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, yfir sjónarmið sveitarfélaga þegar kemur að breyttri nálgun og framsetningu við skil á stafrænum gögnum.
Hér má nálgast upptökur af viðburðinum og einnig er hægt að skoða kynningar frummælenda með því að ýta á viðkomandi hlekki.
Opnunarávarp. Ólafur Árnason, forstjóri Skipulagsstofnunar. Upptaka
Stafrænt deiliskipulag - undirbúningsvinna og fyrstu drög. Albert Þorbergsson, Skipulagsstofnun.
Upptaka Glærur
Tengingar stafræns deiliskipulags við aðra gagnagrunna HMS. Tryggvi Már Ingvarsson, HMS. Upptaka Glærur
Áskoranir í stafrænu deiliskipulagi. Þórarinn Jón Jóhannsson, Reykjavíkurborg. Upptaka Glærur