Námskeið og lausnir við gerð stafræns skipulags
27. mars 2025

Nú þegar ákvæði skipulagslaga um stafrænt aðal- og deiliskipulag hafa tekið gildi vill Skipulagsstofnun vekja athygli á námskeiðum og lausnum sem nýtast þeim sem vinna með GIS gögn og CAD teikningar. Verklag við gerð stafræns skipulags getur verið með misjöfnum hætti og því hvetjum við skipulagshönnuði til að skoða alla möguleika og kynna sér þá leið sem þeim hentar. Aukin færni og þekking getur skilað sér í betri gögnum öllum til hagsbóta. Þetta er ekki tæmandi listi og við viljum gjarnan vita af því ef fleiri bjóða upp á námskeið.
Alta ráðgjöf heldur reglulega námskeið um landupplýsingar og skipulagsmál. Næsta námskeið í notkun á QGIS landupplýsingahugbúnaði er 8. maí.
Focus Arealplan í Noregi hefur smíðað lausn sem virkar beint ofan á Autodesk forrit og er sérsniðið að íslenskum aðstæðum. Þar er hægt að sækja GIS gögn, vinna með þau að öllu leyti áfram í teiknikerfinu og skila af sér á GIS formi. Upplýsingar veitir Ársæll Hreiðarsson (sali@genes.is).
NTI á Íslandi heldur fjölmörg námskeið í notkun á Autodesk teiknikerfinu. Við vekjum athygli á vefnámskeiði á AutoCAD Map 3D þar sem unnið er með GIS gögn í AutoCAD.
Samsýn, umboðsaðili ESRI, er með ýmis námskeið í notkun á ArcGIS landupplýsingahugbúnaði.
Við minnum einnig á vefsíðu Skipulagsstofnunar þar sem nálgast má á einum stað landupplýsingagögn stofnunarinnar og frekari upplýsingar um stafrænt skipulag.