Undirbúningur stafrænna deiliskipulagsgagna
5. mars 2025
Leiðbeiningar fyrir skipulagshönnuði


Um áramótin tóku gildi ákvæði skipulagslaga um að vinna skuli deiliskipulag á stafrænu formi og skila þannig til Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun hefur unnið að innleiðingu stafræns deiliskipulags síðustu misseri, meðal annars með gerð gagnalýsingar og leiðbeininga auk funda um innleiðingu og innihald gagna.
Nú má einnig nálgast leiðbeiningar um undirbúning stafrænna landupplýsingagagna á vefnum, þar sem gefin eru dæmi um verklag sem nota má til að útbúa skipulagsgögn í samræmi við gagnalýsingu um stafrænt deiliskipulag –hvernig sækja má hugbúnað og gögn, undirbúa og færa yfir í sniðmát. Hverju skrefi fylgir stutt myndband til útskýringar. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar þeim sem koma að gerð stafræns deiliskipulags.
Á Stafrænt skipulag og landupplýsingar má nálgast vefsjár og landupplýsingagögn tengd stafrænu skipulagi ásamt öðrum landupplýsingagögnum sem Skipulagsstofnun heldur utan um.
Athugasemdir og ábendingar má senda á skipulag@skipulag.is.