Fundur um stafrænt deiliskipulag – upptaka og glærur
14. febrúar 2025


Fjöldi hlýddi á erindi um innihald stafrænna deiliskipulagsgagna og hvernig innleiðingu þess verður háttað á komandi mánuðum, á upplýsingafundi um stafrænt deiliskipulag sem haldinn var þann 13. febrúar sl. Fundurinn fór fram í húsakynnum Skipulagsstofnunar og sátu þátttakendur ýmist í sal eða tóku þátt gegnum fjarfund. Góðar umræður sköpuðust í lok fundar. Þakkar Skipulagsstofnun þeim sem á hlýddu og tóku þátt í umræðum.
Innihald gagna og innleiðing næstu mánuði
Fundurinn er liður í kynningu stofnunarinnar á breyttu verklagi við gerð deiliskipulagsgagna en samkvæmt skipulagslögum á að vinna skipulag á stafrænu formi og skila þannig til Skipulagsstofnunar. Felur það í sér að vinna skipulagshönnuða færist að einhverju leyti úr hefðbundnum teiknikerfum yfir í landupplýsingakerfi.
Á fundinum kom meðal annars fram að farið verði fram á stafræn skil fyrir nýtt deiliskipulag frá 1. júní næstkomandi. Eftir þann tíma þarf að skila inn stafrænum gögnum fyrir verulegar og óverulegar breytingar á skipulagið sem til er á stafrænu formi. Skipulagsstofnun getur þó tekið við stafrænu deiliskipulagi nú þegar og því ekkert því til fyrirstöðu að skila deiliskipulagi á stafrænu formi fyrir 1. júní.
Á síðu tileinkaðri landupplýsingum og stafrænu skipulagi er að finna gagnalýsingu og leiðbeiningar um gerð stafræns deiliskipulags auk sniðmáts sem nota má í landupplýsingaforritum. Til stendur að útbúa stutt kennslumyndbönd til að gefa dæmi um verklag og einnig er til skoðunar að halda námskeið um stafrænt skipulag.
Dagskrá fundar, upptaka og glærur frummælenda
Opnun fundar. Ólafur Árnason, forstjóri Skipulagsstofnunar.
Innihald stafræns deiliskipulags og yfirferð gagna. Albert Þorbergsson.
Innleiðing stafræns deiliskipulags. Guðrún Lára Sveinsdóttir.