Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) hafa gert með sér nýjan samning um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu til næstu fimm ára. Í samningnum felast ýmis nýmæli sem miða að því að þróa og efla þjónustuna, með áherslu á aukið samstarf aðila um framkvæmd samningsins, þátttöku SHS í innleiðingu tækni- og fjarheilbrigðislausna og ákvæði sem festir hlutverk vettvangsliða í sessi. Samningurinn hefur verið formlega undirritaður og staðfestur af Maríu Heimisdóttur forstjóra SÍ, Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra, Degi B. Eggertssyni formanni stjórnar SHS og Runólfi Pálssyni forstjóra Landspítala, á slökkvistöð SHS í Skútahrauni í Hafnarfirði.