Tilvísanir barna til sérgreinalækna
21. júní 2024
Þann 1. júní síðastliðinn tóku gildi tvær reglugerðabreytingar um tilvísanir barna og greiðsluþátttöku.
Reglugerðirnar sem um ræðir eru númer 1551/2023 og 313/2017.
Helstu breytingar sem gerðar voru eru:
Bráða- og vaktþjónusta barnalækna, þjónusta kvensjúkdómalækna og þjónusta augnlækna verður gjaldfrjáls fyrir börn og þannig er ekki þörf á tilvísunum. Enn er þörf fyrir tilvísun barna (yngri en 18 ára) til annarra sérgreinalækna.
Sérgreinalæknir, sem fengið hefur tilvísun frá heimilis- eða heilsugæslulækni, getur nú vísað barni til annars sérgreinalæknis ef hann telur að það þurfi á annars konar sérfræðiþjónusta að halda.
Ekki er þörf á tilvísun heimilis- eða heilsugæslulæknis í myndgreiningar- og rannsóknarþjónustu.
Sjúkrahúslæknir getur nú vísað barni til sérgreinalæknis.
Heimilt er að gefa út tilvísun fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun sem gildir að 18 ára aldri ( í stað 10 ára í senn).
Rétt er að minna á mikilvægi heilsugæslunnar sem er ætlað að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu og sinna allri almennri heilbrigðisþjónustu sem og leiðbeina um hvert skuli leita þegar þörf er á sérhæfðari þjónustu, sbr. 2 gr. reglugerðar nr. 313/2017 og núgildandi heilbrigðisstefnu.