Fara beint í efnið
Sjúkratryggingar Forsíða
Sjúkratryggingar Forsíða

Sjúkratryggingar

Niðurstöður könnunar um heilsugæslu nýttar í frekari þróun þjónustu

5. mars 2024

Sjúkratryggingar létu nýverið kanna ánægju og traust meðal notenda heilsugæslustöðva á Íslandi. Könnunin er liður í reglulegu eftirliti Sjúkratrygginga með þjónustu sem veitt er á grundvelli samninga við stofnunina. Niðurstöðurnar nýtast bæði Sjúkratryggingum, heilbrigðisyfirvöldum og heilsugæslustöðvunum sjálfum til stefnumótunar, þróunar og eflingar þjónustu.

Biðstofa - Sjúkratryggingar

Helstu niðurstöður gefa til kynna að heilsugæslustöðvar um allt land njóta trausts og að flestir notendur eru ánægðir með þjónustuna. Blikur eru þó á lofti og dregið hefur úr trausti og ánægju á síðustu árum. Aðspurð segja mjög mörg að það sem helst megi bæta hjá heilsugæslunni sé styttri bið eftir tíma og almennt að bæta megi aðgengi að viðtali við lækni hvort sem það er í persónu, í síma eða rafrænt.

Traust og ánægja dragast saman

Traust og ánægja árið 2023

Mynd 1: Svör við spurningunum: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til heilsugæslunnar almennt? Og: Almennt séð hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ertu með þjónustu heilsugæslunnar?

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd njóta heilsugæslustöðvar umtalsverðs trausts en á höfuðborgarsvæðinu segjast 63% treysta heilsugæslunni mikið eða mjög mikið og á landsbyggðinni er þetta hlutfall 60%. Þegar spurt er um ánægju með þjónustu gefa 66% til kynna að þau séu mjög eða fremur ánægð með þjónustu sinnar heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og er þetta hlutfall 59% á landsbyggðinni.

Traust og ánægja 2019 - 2023

Mynd 2: Hlutfall þeirra sem sögðust bera mjög mikið eða fremur mikið traust til heilsugæslunnar og þeirra sem voru mjög ánægð eða fremur ánægð með þjónustu heilsugæslunnar í síðustu þremur könnunum.

Það vekur þó athygli að dregið hefur úr bæði trausti og ánægju á síðustu árum sem er áhyggjuefni og leita þarf skýringa á. Heilsugæslan er hornsteinn í heilbrigðiskerfinu og þarf að njóta víðfeðms trausts og svara þörfum notenda.

Vel leyst úr erindum fólks

Úrlausn erindis og viðmót starfsfólks 2023

Mynd 3: Svör við spurningunum: Var leyst vel eða illa úr erindi þínu síðast þegar þú komst á heilsugæsluna? Og: Hversu gott eða slæmt finnst þér almennt viðmót og framkoma starfsfólks heilsugæslunnar?

Þegar skoðað er hvernig leyst var úr erindum fólks þegar það leitaði síðast á sína heilsugæslustöð sést að stór meirihluti fékk mjög eða fremur vel leyst úr sínum málum (77% á höfuðborgarsvæði og 73,5% á landsbyggð). Jafnframt var mikil almenn ánægja með viðmót starfsfólks (84,5% á höfuðborgarsvæði og 83% á landsbyggð). Það er jákvætt að langflest upplifi að þau fái vel leyst úr sínum málum og mæti góðu viðmóti á heilsugæslu.

Úrlausn erinda og viðmót starfsfólks 2019-2023

Mynd 4: Hlutfall þeirra sem sögðu mjög vel eða fremur vel leyst úr erindi þeirra og þeirra sem fannst viðmót starfsfólks mjög gott eða fremur gott í síðustu þremur könnunum.

Það er þó áhyggjuefni að dregið hefur úr ánægju með það hvernig fólk fær leyst úr erindum sínum og einnig hefur lítillega dregið úr ánægju með viðmót starfsfólks. Þessir þættir mælast þó talsvert betur en traust og ánægja með þjónustu. Því má draga þá ályktun að það að dregið hafi trausti og ánægju fremur vegna skorts á aðgengi og langrar biðar en vegna þeirrar þjónustu sem fólk fær þegar það hittir lækni eða annað heilbrigðisstarfsfólk á heilsugæslunni.

Þrjú af hverjum fjórum vilja styttri bið

Hvað er brýnast að bæta í heilsugæslunni?

Mynd 5: Svör við spurningunni: Hvað finnst þér brýnast að bæta í heilsugæslunni almennt?

Þegar spurt var hvað væri brýnast að bæta svöruðu langflest að stytta þyrfti bið eftir tíma. Á höfuðborgarsvæðinu sögðu 73% að brýnt væri að stytta biðina og á landsbyggðinni var þetta hlutfall 65,5%. Þau atriði sem svarendum þótti næst brýnast að bæta voru að auðveldara væri að ná í lækni í síma, að rafræn þjónusta yrði aukin og að fá skráningu á fastan heimilislækni. Af svörunum er ljóst að fólk hefur áhyggjur af því að ná ekki samtali við lækni innan ásættanlegs tíma – hvort sem það er í persónu, í síma eða rafrænt. Á landsbyggðinni nefndu fleiri að brýnt væri að fá skráningu á fastan lækni en á höfuðborgarsvæðinu og er það til marks um tíðar mannabreytingar á landsbyggðinni. Þar staldra læknar gjarnan stutt við og skjólstæðingar heilsugæslu, sem þurfa eftirfylgni til lengri tíma, hitta gjarnan nýja lækna í hverri heimsókn.

Virk forgangsröðun brýnna erinda

Áhugavert var þó að skoða tölur um hvernig svarendum gekk að fá tíma eftir því hversu brýnt erindi þeirra var.

Þjónusta heilsugæslu - Höfuðborgarsvæðið

Á þessari mynd frá höfuðborgarsvæðinu má sjá að almennt tekst að forgangsraða málum í samræmi við mikilvægi. Flestir sem eru með mjög brýn erindi fá tíma strax, fremur brýn erindi fá tíma samdægurs, í meðallagi fá tíma innan tveggja daga og svo framvegis. Það er þó áhyggjuefni að í kringum 21% bæði þeirra sem eru töldu sig vera með mjög brýn eða fremur brýn erindi virtust þurfa að bíða í að minnsta kosti meira en viku eftir tíma. Á sambærilegri mynd frá landsbyggðinni sést sama mynstur, þ.e. að ágætlega gengur að forgangsraða í tíma eftir því hve brýnt erindið er en þar líkt og á höfuðborgarsvæðinu þarf að leggja meiri áherslu á að fólk með mjög brýn og brýn erindi komist örugglega að fyrr.

Þjónusta heilsugæslu - Landsbyggð

Um könnunina

Maskína framkvæmdi könnunina fyrir Sjúkratryggingar á tímabilinu 17.október 2023 til 5.janúar 2024. Slembiúrtak var gert meðal þeirra sem sótt höfðu heilsugæslustöðvar á landinu janúar til september 2023. Í Reykjavík tóku 5.955 einstaklingar þátt í könnuninni, en á landsbyggðinni 3.394. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, ensku og pólsku.

Skoða má gögn úr könnuninni hér: