Fara beint í efnið
Sjúkratryggingar Forsíða
Sjúkratryggingar Forsíða

Sjúkratryggingar

Sjúkratryggingar hljóta verðlaun fyrir stafræna þróun

27. september 2023

Á ráðstefnunni Tengjum ríkið sem fram fór föstudaginn 22. september síðastliðinn fengu Sjúkratryggingar verðlaun á sviði stafvæðingar sem veitt eru fyrir opinbera aðila sem nýta opin og sameiginleg tól sem þróuð hafa verið af Stafrænu Íslandi

Viðurkenning fyrir sex stafræn skref

Verðlaunin bera heitið Stafræn skref og voru fyrst veitt árið 2022. Stafrænu skrefin eru níu talsins og hafa Sjúkratryggingar þegar náð átta skrefum og það níunda er á leiðinni.

Af þeim átta stafrænu skrefum sem Sjúkratryggingar hafa náð má nefna innleiðing á nýrri heimasíðu á Ísland.is sem fór í loftið fyrir rúmu ári síðan. Við heimasíðuna hafa bæst við þjónustusíða og spjallmennið Askur. Heimasíða Sjúkratrygginga er mest sótti vefur stofnana á Ísland.is. Þjónustusíðan og spjallmennið hafa bætt þjónustu stofnunarinnar til muna og viðtökur hafa verið með ágætum.

Á mínum síðum á Ísland.is er kominn nýr flokkur Heilsa. Þar undir hafa Sjúkratryggingar komið inn upplýsingum sem áður voru í Réttindagátt um tannlækna, heilsugæslu, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, talþjálfun, hjálpartæki og næringu. Á næstu vikum bætast við upplýsingar um lyf og greiðsluþátttöku. Þar að auki hafa Sjúkratryggingar innleitt stafræna pósthólfið á Ísland.is.

Sjúkratryggingar tóku þátt í þróun á umsóknarkerfi á Ísland.is og áttu fyrstu umsóknina sem kom inn í kerfið. Í dag eru umsóknirnar orðnar þrjár, það er umsókn um sjúkratryggingu, tilkynning um slys og svo umsókn um evrópskt sjúkratryggingakort. Umsókn um evrópska sjúkratryggingakortið er langstærsta umsóknin í umsóknarkerfinu á Ísland.is þegar litið er til fjölda.

Einnig hafa Sjúkratryggingar innleitt strauminn (X-Road) og telja vefþjónustur sem stofnunin hefur komið upp á annan tug. Straumurinn er nýttur til að birta gögn á Mínum síðum á Ísland.is ásamt því að miðla gögnum til Embætti landlæknis, Landspítala og Vinnueftirlitsins.

Síðast en ekki síst hafa Sjúkratryggingar innleitt „Innskráningu fyrir alla“ og umboðskerfi á Ísland.is á móti Réttindagátt og Gagnagátt.

Í vinnslu er svo að koma ýmsum upplýsingum frá Sjúkratryggingum inn í Ísland.is app-ið.

Nánar má lesa um viðurkenningarhafa á heimasíðu Ísland.is.