Rudolf Kristinsson hlýtur heiðursviðurkenningu SHH árið 2025
12. febrúar 2025
Í tilefni af degi íslensks táknmáls árið 2025 veitir Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) Rudolfi Kristinssyni heiðursviðurkenningu SHH fyrir ómetanlegt framlag hans til varðveislu íslensks táknmáls.
Á SHH eru varðveitt fjölmörg myndbönd þar sem Rudolf segir sögur af sjómennsku sinni og annarra döff sjómanna og er hann viðmælandi í viðtölum sem tekin hafa verið af ýmsu tilefni.
Rudolf hefur í áranna rás gefið SHH upptökur úr eigin myndbandasafni á ýmsu formi, m.a. VHS spólum sem SHH hefur breytt í stafrænt form og birtir, ásamt upptökum af honum í tilefni dags íslensks táknmáls. Birting myndbandanna er einnig liður í stefnu SHH og fjármálaáætlun stjórnvalda.
Rudolf Kristinsson fæddist í Vestmannaeyjum 17. júlí árið 1936. Fimm ára gamall flutti hann til Reykjavíkur og gekk í Heyrnleysingjaskólann. Átta ára gamall flutti hann í Stykkishólm til móðursystur sinnar og síðan þaðan í Oxney í Breiðafirði þar sem hann gekk í skóla. 16 ára gamall flutti hann aftur til Reykjavíkur og óskaði eftir að komast að í Heyrnleysingjaskólanum að nýju. Skólinn var þá fullsetinn og fékk hann heimakennslu. Samhliða henni vann hann á Keflavíkurflugvelli ásamt fósturföður sínum í fasteignaumsjón. Þá var hann tíður gestur á heimili Sigríðar Kolbeinsdóttur og Jóns Kr. Sigfússonar þar sem hann lærði íslenskt táknmál í félagsskap Grétars Jónssonar.
21 árs gamall hóf Rudolf sjómennsku sem netamaður togaranum Þormóði Goða RE 209 ásamt bróður sínum sem var stýrimaður. Rudolf var netamaður á tíu öðrum skipum í sinni sjómannstíð, m.a. á togaranum Frera RE 73 ásamt öðrum táknmálstalandi sjómönnum. Í sjómennskunni nýttist íslenska táknmálið vel enda auðvelt að ræða saman milli brúar og dekks og skips og bryggju. Rudolf stundaði sjóinn í tæpa fimm áratugi og á sjómannadaginn árið 2001 hlaut hann viðurkenningu sjómannadagsráðs fyrir störf sín.
Hér er slóð á SignWiki þar sem þið getið kynnt ykkur nánar þann fjársjóð sem þið og komandi kynslóðir geta leitað í, séð áhugaverðar sögur og rannsakað íslenskt táknmál.

