Ráðstefna í Slóveníu
18. desember 2024
Starfsmenn SHH sóttu ráðstefnuna Everything is in our hands sem haldin var í Slóveníu
Nokkrir starfsmenn Samskiptamiðstöðvar fóru til Slóveníu á dögunum. Erindið var tvíþætt; annars vegar að sækja ráðstefnuna Everything is in our hands og hins vegar til að taka þátt í stofnun alheimssamtaka táknmálsstofnana. Menningar- og viðskiptaráðuneytið styrkti ferðina en Kristín Lena Þorvaldsdóttir, forstöðumaður og Uldis Ozols verkefnisstjóri í táknmálskennslu fluttu erindi um Samskiptamiðstöð á ráðstefnunni. Erindi ráðstefnunnar fjölluðum um þá þjónustu sem táknmálsstofnanir víða um heim sinna. Á ráðstefnunni kom bersýnilega í ljós að Ísland stendur flestum löndum framar þegar kemur að táknmálsþjónustu, hvort heldur sem litið er til kennslu, túlkunar eða ráðgjafar. Þá komu í ljós mörg sóknarfæri fyrir Ísland, svo sem á sviði orðabókargerðar og námsefnisgerðar og skiptir ráðstefna sem þessi sköpum til að finna réttu samstarfsaðilana í slíkum verkefnum. Undir lok ráðstefnunnar var skipaður vinnuhópur samtaka táknmálsstofnana og tók Ísland sæti í honum.