Ný myndbönd birt á Signwiki
20. febrúar 2025
Á dögunum birti Samskiptamiðstöð myndbönd af tveimur af elstu málhöfum íslenska táknmálsins sem til eru upptökur af. Þeir eru mikilvægir hlekkir í sögu döff og íslensks táknmáls á Íslandi. Þetta eru myndbönd af þeim Ragnari Erlendssyni og Þorsteini Þorgeirssyni.
Ragnar Erlendsson fæddist í Reykjavík 3. júní 1911 og lést þar 18. ágúst 1998.
Eftir nám við Heyrnleysingjaskólann í Stakkholti vann Ragnar hjá Hitaveitu Reykjavíkur í áratugi. Hann var náttúruunnandi og þann áhuga sinn sýndi hann gjarnan á listrænan hátt, t.d. með því að mála og taka myndir.
Böðvar Árnason tók viðtal við Ragnar fyrir utan Vinahlíð árið 1993. Þar segir hann m.a. frá skólanum, barnæsku og vinnu.
Þorsteinn Þorgeirsson fæddist á Lambastöðum í Garði 4. desember 1913 og bjó þar allt þar til hann lést 6. mars 2001.
Þorsteinn, kallaður Steini, var einn tólf systkina. Hann starfaði við sjómennsku frá unga aldri og átti m.a. og réri á vélbátnum Þorsteinn GK 327 alla tíð.
Árið 1995 tók Daníel Jacob Jensen viðtal við Þorstein heima hjá honum í Garði. Þar segir hann m.a. frá uppvexti sínum, fjölskyldu, skóla og vinnu.
Ragnar og Þorsteinn voru virkir þátttakendur í samfélagi döff í Reykjavík og voru meðal annarra stofnfélagar Félags heyrnarlausra 11. febrúar 1960.
Hér er hlekkur á myndböndin á Signwiki

