Fara beint í efnið
Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða
Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða

Náttúruhamfaratrygging Íslands

Staða tjónamála í Grindavík

2. febrúar 2024

Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) hefur borist samtals 432 tilkynningar um tjón vegna náttúruhamfaranna í Grindavík, þar af bárust 8 tilkynningar í síðustu viku. Búið er að skoða 266 húseignir og 15 innbú en eftir standa óskoðuð 122 tjón á húseignum og 29 tjón á innbúum/lausafé sem óljóst er hvenær hægt verður að skoða.

Grindavik tryggt

Alls hafa 53 húseignir (30 íbúðareignir og 23 atvinnueignir) og 2 innbú verið metin sem altjón af matsmönnum NTÍ.  Búið er að hafa samband við alla eigendur húsnæðis sem matsmenn hafa þegar staðfest að sé óviðgerðarhæft.

Í nokkrum tilvikum er um að ræða þá flóknu stöðu að við íbúðarhús sem talin eru vera óviðgerðarhæf eru bílskúrar sem eru minna skemmdir og teljast því viðgerðarhæfir. Enn hefur ekki hefur verið leitt til lykta hvernig farið verður með þau mál og því þarf uppgjör á þeim að bíða enn um sinn. Einnig er ljóst að atburðirnir 14. janúar höfðu í mörgum tilfellum í för með sér veruleg viðbótartjón á þeim eignum sem áður höfðu verið metnar sem hlutatjón. Því er ekki raunhæft að leggja fram tjónamat á hlutatjónseignum fyrr en tækifæri hefur gefist til að leggja mat á þau áhrif sem eldgosið og jarðhræringarnar í janúar hafa haft í för með sér.

Framvinda hamfaranna í Grindavík tekur stöðugum breytingum og sífellt flóknara verður að taka afstöðu til þess hvernig rétt sé að standa að uppgjöri á öðrum eignum en altjónseignum.

NTÍ mun áfram leggja sig fram um að greiða inn á þau tjón sem hægt er að greiða inn á, en óhjákvæmilegt er að halda eftir hluta tjónabóta til að standa undir niðurrifskostnaði á altjónseignum í samræmi við lög um NTÍ og réttmæta ráðstöfun tjónabóta. Forsenda þess að unnt sé að framkvæma innborganir á tjón sem nema hærri fjárhæð en 15% af brunabótamati eignarinnar er að sveitarfélagið hafi staðfest að endurbætur eða endurbygging sé ekki heimil.   

Hafðu samband

Sími: 575 3300

Netfang: nti@nti.is

Opnunartími

Mánudaga - fimmtudaga:
9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Heimilisfang

Hlíðarsmári 14

201 Kópavogur