Host Nation Support
10. október 2023
Náttúruhamfaratrygging Íslands tekur þessa dagana þátt í samnorrænni almannavarnaæfingu sem Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra stendur fyrir. Æfingin fer fram í Reykjavík dagana 10-13. október 2023 og verður haldin í Tollhúsinu við Tryggvagötu 19.
Æfingin spilar mikilvægt hlutverk í tveggja ára verkefni sem unnið hefur verið af hagsmunaaðilum viðbragðskerfisins og miðar að því að búa til áætlun um móttöku alþjóðlegrar neyðaraðstoðar og hjálparliðs samkvæmt stefnu stjórnavalda í Almannavarna- og öryggismálum og samþykktum áherslum HAGA samstarfsins. Í 7.gr laga um Almannavarnir segir að ríkislögreglustjóri geti „að fengnu samþykki ráðherra farið fram á aðstoð hjálparliðs erlendis frá vegna almannavarnaástands í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að“. Á æfingunni verður farið yfir drög að nýrri reglugerð er snýr að þessum málaflokki ásamt leiðbeiningahandbók.
Á æfingunni er einnig farið yfir og rýnt skipulag fyrir beiðni, móttöku og starfsemi alþjóðlegs hjálparliðs, auk þess sem rætt verður um samstarf Íslands og nærliggjandi landa um fyrsta viðbragð og endurreisn. Æfingin er ætluð fulltrúum norrænna almannavarna, fulltrúum ráðuneyta sem og fulltrúum viðbragðsgeirans á Íslandi.