Þessi frétt er meira en árs gömul
Viltu vera sjálfboðaliði á heimsþingi IUFRO?
11. október 2023
Skipuleggjendur heimsþings IUFRO, alþjóðasamtaka skógrannsóknastofnana, óska nú eftir áhugasömu og þjónustulunduðu ungu fólki til að gerast sjálfboðaliðar á þinginu sem haldið verður í Stokkhólmi í júní á næsta ári.
Þingið er stærsti viðburður í skógargeiranum í heiminum á næsta ári og er nú haldið í tuttugasta og sjötta sinn. Það fer fram dagana 23. til 29. júní 2024.
Sjálfboðaliðar taka að sér að vera erindrekar á þinginu, hjálpa til við ýmis verkefni og framkvæmd þingsins, veita fulltrúum og þátttakendum á þinginu ýmsar upplýsingar, manna sérstakar stöðvar á þinginu og taka þannig virkan þátt í viðburðum og sýningum á þinginu, taka þátt í dagsnámskeiði fyrir sjálfboðaliða en einnig kynnisferðum á þingtímanum, aðstoða við útisamkomu þingsins 28. júní og margt fleira. Leitað er að jákvæðu og þjónustulunduðu fólki sem er getur unnið á faglegan hátt.
Sjálfboðastarf á heimsþinginu er dýrmætt tækifæri fyrir ungt fólk til að mynda tengsl og hitta helsta rannsóknarfólk í skógargeiranum hvaðanæva úr heiminum, forystufólk úr atvinnulífinu og opinbera geiranum, stjórnmálafólk og fleiri. þarna gefst líka möguleiki á tengslum við hugsanlega vinnuveitendur framtíðarinnar fyrir ungt fólk á sviði skógarmála og skógrannsókna.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um stöður sjálfboðaliða sem vilja hjálpa til við þann stórviðburð sem heimsþing IUFRO 2024 er á skógarsviðinu.
Texti: Pétur Halldórsson