Þessi frétt er meira en árs gömul
Úttekt á bindingu í Kolviðarskógi
1. júlí 2021
Í nýútkomnu tölublaði af Riti Mógilsár er lýst úttekt á kolefnisbindingu sem átt hefur sér stað í Kolviðarskógi á Hofssandi frá síðustu mælingu árið 2014. Í ljós kemur m.a. að töluverð sjálfsáning birkis á sér stað sem mun hraða kolefnisbindingu svæðisins. Þá hefur binding í trjágróðri á svæðinu tvöfaldast á þeim sex árum sem liðu milli mælinga. Í spá fram til 2030 er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu á árlegri bindingu.
Höfundur skýrslunnar er Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Sú úttekt sem kynnt er í skýrslunni var unnin fyrir og greidd af Kolvið. Kolviður er sjóður sem hefur það meðal annars að markmiði að auka bindingu kolefnis í skógarvistkerfum í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Kolviður býður fyrirtækjum og einstaklingum þjónustu við að binda kolefni úr andrúmslofti með nýskógrækt. Fyrsta skógræktarsvæði Kolviðar er svæðið sem hér var tekið út og er kallað Hofssandur.
Markmið úttektarinnar var að meta á vísindalegan og viðurkenndan hátt kolefnisbindingu sem átt hefur sér stað frá úttekt sem gerð var haustið 2014 og fram að hausti 2020. Við bætast mælingar á svæðum sem voru gróðursett árið 2013. Meðal athyglisverðra niðurstaðna er töluverð sjálfsáning birkis sem kom í ljós á frjósamasta hluta svæðisins og í talsverðum þéttleika. Ljóst er að í framtíðinni munu þessar sjálfsáningar hraða bindingu kolefnis á svæðinu. Áhugavert er líka að sjá í niðurstöðunum að jafnvel þótt talsverður áburður hafi borinn á skóginn nema losunaráhrif N2O vegna áburðargjafar með tilbúnum áburði einungis broti af heildarbindingu eða tveimur prósentum.
Hofssandur er við Stóra-Hof á Rangárvöllum. Binding á svæðinu hefur tvöfaldast frá mælingunni 2014 og í skýrslunni er sett fram spá yfir væntanlega bindingu fram til 2030. Árleg binding á svæðinu, sem er 162,3 hektarar, er nú tæplega 400 tonn af CO2 en verður komin töluvert yfir 500 tonn árið 2030 samkvæmt spánni.
Þrjár skýrslur hafa komið út í Riti Mógilsár á þessu ári um kolefnisbindingu í íslenskum skógum, tvær á íslensku og ein á ensku. Tilgangurinn með útgáfunni er ekki síst að veita upplýsingar um þær aðferðir sem beitt er við úttektir og mælingar á bindingu í skóglendi. Þetta eru meðal annars mikilvægar upplýsingar fyrir alla sem hyggja á skógrækt til kolefnisbindingar, bæði innlenda aðila og erlenda.
Öll tölublöð Rits Mógilsár eru aðgengileg á vef Skógræktarinnar og á Rafhlöðunni, rafbókasafni Landsbókasafns Íslands.
Úttekt á kolefnisbindingu skógræktar á svæðum Kolviðar á Hofssandi við Stóra-Hof á Rangárvöllum
Úttekt á kolefnisbindingu skóglendis á Drumboddsstöðum II í Biskupstungum
Inventory of Carbon stock changes at Óseyri afforestation area in Stöðvarfjörður, East-Iceland
Texti: Pétur Halldórsson