Tillögur um tækifæri til viðskipta með kolefniseiningar
19. nóvember 2024
Í tillögum starfshóps umhverfis- orku- og loftslagsráðherra um stöðu og tækifæri til viðskipta með kolefniseiningar hér á landi er meðal annars fjallað um lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að valkvæður markaður með slíkar einingar geti starfað eðlilega. Meðal tillagna hópsins er stefnumótun af hálfu ríkisins í þessum efnum, skattalegir hvatar og markaðstorg með kolefniseiningar.
Starfshópurinn kynnti niðurstöður sínar í morgun á fundi sem haldinn var í ráðuneytinu og í streymi. Upptaka af fundinum er aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.
Í upphafi flutti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, stutt ávarp. Hann skipaði umræddan starfshóp á síðasta ári og nú hefur tillögum hópsins verið skilað með skýrslu til ráðherra. Hópnum var falið að skoða hlutverk kolefnismarkaða í íslensku samhengi og leggja mat á helstu áskoranir og tækifæri sem og mögulegan ávinning af verkefnum sem framleitt geta slíkar einingar, auk þess að leggja mat á eftirfarandi:
Kolefnismarkaði á grundvelli 6. greinar Parísarsamningsins.
Valkvæðan kolefnismarkað – þátttöku íslenskra fyrirtækja, framleiðslu, vottun og fleira.
Kolefnismarkað og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Verkefni á sviði föngunar og förgunar kolefnis og tengingu við alþjóðlega kolefnismarkaði.
Starfshópinn skipuðu þau Jónas Friðrik Jónsson, formaður, Helga Barðadóttir, sérfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, og Rafn Helgason, sérfræðingur í matvælaráðuneytinu. Jónas tíundaði störf nefndarinnar og tillögur á fundinum.
Fyrst ræddi Jónas um hugtakið kolefniseiningu sem jafngildir einu tonni af koltvísýringsígildum og fór svo yfir hvað felst í annars vegar lögbundnum kolefnismörkuðum og hins vegar valkvæðum. Lögbundnir kolefnismarkaðir eru settir upp með atbeina ríkja eða ríkjasambanda og þátttaka í þeim er á grundvelli þess að uppfylla skyldur þátttakenda um samdrátt í eigin starfsemi. Á valkvæðum mörkuðum kaupa aðilar kolefniseiningar án þess að vera skyldaðir til þess.
Jónas ræddi um eðli valkvæða markaðarins, fór yfir stöðu ríkisins sem kaupanda eininga, þær ríku kröfur sem yrðu að fylgja slíkum kaupum og lagabreytingar sem þurfa að fara fram til að valkvæði markaðurinn geti starfað á eðlilegan hátt. Skilgreina þarf hugtakið kolefniseiningu í lögum og vinna lagafrumvarp um kolefnisskrár. Þá fjallaði hann um stefnumótun um kaup á kolefniseiningum og að hér þyrftu stjórnvöld að móta stefnu, til dæmis um að ekki verði heimilaður útflutningur á alþjóðlegum kolefniseiningum frá Íslandi sem hefðu neikvæð áhrif á losunarbókhald Íslands.
Þá reifaði hann hugmyndir um skattalega umgjörð rekstrar við framleiðslu og kaup á kolefniseiningum svo sem að fyrirtæki fái að telja útgjöld til kolefnisjöfnunar til frádráttar í rekstri sínum. Meðal tillagna starfshópsins eru sérstakar fyrningarheimildir, möguleikar á endurgreiðslu tiltekins hlutfalls fjárfestingarútgjalda eða greiðslu umhverfisskatta í formi kolefniseininga. Einnig er lagt til að stjórnvöld taki þátt í tilraunaverkefni um milliríkjaviðskipti á grundvelli sjöttu greinar Parísarsamningsins, meðal annars til að greina innviði stjórnkerfisins til að sinna slíkum verkefnum. Einnig að skoðaðir verði möguleikar á verkefnum sem gætu aðstoðað þróunarlönd við að ná kolefnishlutleysi. Loks ræddi Jónas um tillögu þess efnis að stjórnvöld leiði saman hagaðila til að kanna áhuga á stofnun markaðstorgs með kolefniseiningar.
Næstu skref eru að setja skýrsluna í samráðsgátt til athugasemda og ábendinga og vinna málið áfram út frá tillögum starfshópsins og samráðsferlinu ásamt því að vinna drög að frumvarpi um kolefniseiningar.
Að loknu erindi Jónasar Friðriks Jónssonar tók ráðherra aftur til máls og nefndi meðal annars að hér væri verið að styrkja grundvöll þess að búa til hvata til að endurheimta votlendi, rækta skóg og stunda landgræðslu. Fyrirkomulag sem ýti undir slík verkefni sé mikilvægt og það þurfi að kynna vel.
Upptaka frá kynningunni er aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.