Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Skemman í Víðidal á Fjöllum fauk í óveðri

15. nóvember 2024

Eina byggingin sem enn var uppistandandi á eyðibýlinu Víðidal á Fjöllum fauk í óveðrinu á miðvikudag. Þessi bárujárnsklædda timburskemma var nýtt til að hýsa fé í smalamennsku á haustin en framvegis verður notast við þaklaust aðhald á staðnum. Brakið úr skemmunni hefur verið hreinsað burt að mestu og tryggt að það sem eftir er fjúki ekki.

Fokin skemma í Víðidal-1

Víðidalur á Fjöllum fór í eyði um aldamótin og óskuðu síðustu ábúendur eftir því að bærinn yrði rifinn og efni fjarlægt af yfirborði jarðar nema umrædd skemma sem talið var að myndi nýtast áfram. Síðan hefur jörðin og þar með skemman verið í umsjón Landgræðslunnar og nú Lands og skógar. Þar hefur verið unnið að uppgræðslu.

Á miðvikudag kom tilkynning til Múlaþings frá vegfaranda sem átti leið um Víðidal að skemman væri farin að fjúka og var skilaboðum komið áfram til Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna og þaðan til Lands og skógar sem brást við og kallaði til starfsmenn sína í Mývatnssveit og Ásbyrgi, vélamennina Þorlák Pál Jónsson og Jóhannes Guðmundsson. Með þeim fór Bárður Jón Gunnarsson, verktaki í Mývatnssveit. Þegar þeir komu á staðinn stóð aðeins annar gafl skemmunnar uppi og segir Þorlákur að lítið hafi þurft að ýta við honum með dráttarvélinni til að hann félli inn í skemmugrunninn. Þar var hann tryggður og verður fjarlægður síðar.

Annað efni úr skemmunni var tínt upp í nágrenninu og flutt á brott, sérstaklega bárujárnsplötur sem gátu fokið og lauk því verki í dag föstudag. Þorlákur segir að skemman hafi nýst vel undanfarinn tæpan aldarfjórðung, sérstaklega á haustin þegar fé er smalað á svæðinu. Þá hafi fénu verið smalað í skemmuna og hýst þar þangað meðan á smölun stóð. Hann segir að burðarvirki vestan megin í skemmunni hafi að hluta verið orðið fúið og til hafi staðið á næstunni að styrkja það en nú þurfi ekki að hugsa um það frekar. Skemman sé horfin og verði ekki reist á ný. Í staðinn verði notast við litla rétt eða aðhald til að geyma fé sem hefur verið smalað.

Meðfylgjandi myndir tók Þorlákur Páll Jónsson við hreinsunarstörfin í Víðidal. Þar sést vel hvernig skemman hefur splundrast og efnið úr henni fokið af grunninum nema spýtnabrak sem þar liggur eins og hráviði.

Fokin skemma í Víðidal-6
Fokin skemma í Víðidal-7
Fokin skemma í Víðidal-5
Fokin skemma í Víðidal-2
Fokin skemma í Víðidal-3
Fokin skemma í Víðidal-6