Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Þessi frétt er meira en árs gömul

Nóvembergróðursetning

22. nóvember 2023

Ekkert er því til fyrirstöðu að gróðursetja tré í nóvember ef tíðarfar hefur verið gott eins og þetta haustið. Starfsfólk Selfossskrifstofu Skógræktarinnar setti niður aspir og furur í landi Kollabæjar í Fljótshlíð í síðustu viku undir stjórn Hrafns Óskarssonar, ræktunarstjóra á Tumastöðum. Búist er við um tuttugu tonna árlegri meðalbindingu koltvísýrings á svæðinu.

Nóvembergróðursetning

Nokkrir starfsmenn frá starfstöð Skógræktarinnar á Selfossi héldu 16. nóvember 2023 að Tumastöðum til gróðursetningar undir dyggri stjórn Hrafns Óskarssonar, ræktunarstjóra þar. Reiturinn sem gróðursett var í er hluti af svokölluðu „Nýfundnalandi“ sem er spilda úr landi Kollabæjar. Nokkur bið hafði verið eftir að fá framkvæmdaleyfi fyrir verkinu og því hafði dregist að gróðursetja í spilduna.

Að sögn Trausta Jóhannssonar, skógarvarðar á Suðurlandi hefur veðrið í nóvember verið afar milt og því ekkert til fyrirstöðu að gróðursetja þó komið sé fram í seinni hluta nóvembermánaðar. Gróðursetningin er unnin í samstarfi við European Festivals Forests, verkefni sem stuðlar að kolefnisbindingu í skógi til að vega upp kolefnislosun þeirra hátíða sem haldnar eru á vegum European Festivals Association.

Alls voru gróðursettar tæplega 3.000 plöntur af alaskaösp og stafafuru þennan milda fimmtudag í nóvember. Helsta vandamálið við gróðursetningar á þessum árstíma er hversu stuttir dagarnir eru, segir Trausti. Hann bætir við að samkvæmt kolefnisspá fyrir svæðið megi gera ráð fyrir því að árleg meðalbinding í reitnum verði um 20,6 tonn af koltvísýringi sem er dágott. Aftur verður gróðursett á næsta ári og þá er gert ráð fyrir að sett verði niður um 6.000 tré.

Heimild: Trausti Jóhannsson

Myndir: Valgerður ErlingsdóttirTexti: Pétur Halldórsson