Landgræðslu- og skógræktaraðgerðir í Þorlákshöfn 2023 og 2024
10. apríl 2025
Vel á annað hundrað þúsund trjáplöntur voru gróðursettar í Þorláksskóga á síðustu tveimur árum. Áhersla er lögð á að bera á trjáplöntur til að tryggja þeim vaxtarskilyrði auk þess sem unnið er að því að binda foksand svo skilyrði skapist til gróðursetningar trjáplantna.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem Land og skógur sendi nýverið samstarfsaðila sínum í Þorláksskógaverkefninu, Sveitarfélaginu Ölfusi. Samstarf sveitarfélagsins hófst formlega árið 2016 við þáverandi stofnanir, Landgræðsluna og Skógræktina. Í minnisblaðinu eru upplýsingar um framkvæmdir og kostnað við þær árin 2023 og 2024.
Uppgræðsla
Þessi tvö umræddu ár var annars vegar lögð áhersla á að bera tilbúinn áburð á trjáplöntur til að tryggja þeim sem ákjósanlegust vaxtarskilyrði. Hins vegar var tilbúnum dreift á rýrt land, þar sem er mikið af lausum sandi, með það að markmiði að stöðva hreyfingu sandsins og gera landið um leið ákjósanlegra fyrir gróðursetningu trjáplantna. Aðgerðirnar beindust mest að landsvæði vestan við gamla veginn upp Hafnarsand og var tilbúnum áburði dreift á um 440 hektara. Einnig var tilbúnum áburði dreift á Kambinn austan við Þorlákshöfn í því skyni að minnka líkur á að sá sandur sem berst yfir Kambinn fjúki í átt að bænum og golfvellinum. Samtals var borinn tilbúinn áburður á um 24 hektara við Kambinn árin 2023 og 2024.
Vorið 2024 var kjötmjöli dreift á um 43 hektara á móts við sandnámu í landi Hrauns í átt að Óseyrarbrú, Markmiðið með því var að styrkja gróður sem farinn var að láta á sjá.

Gróðursetning trjáa
Gróðursettar voru 166.710 trjáplöntur og græðlingar á Hafnarsandi árin 2023 og 2024. Um gróðursetningu sáu sjálfboðaliðar að mestu leyti ásamt íþróttahópum sem gróðursettu í fjáröflunarskyni. Áhersla var lögð á að gróðursetja í svæði sem hafa verið grædd upp með lúpínu eða grassáningum og áburðargjöf. Í sumum reitum var blandað trjátegundum.
Kostnaður framkvæmda
Heildarkostnaður við aðgerðir Lands og skógar í Þorlákshöfn árin 2023 og 2024 nam rúmlega fimmtíu og einni milljón króna. Stærsti kostnaðurliðurinn voru trjáplöntur og gróðursetning þeirra eða um 26 milljónir. Þar á eftir er dreifing áburðar, lífræns og tilbúins, um tólf milljónir.