Jólatré úr þjóðskógum
11. desember 2024
Sala jólatrjáa fer senn að ná hámarki fyrir jólin. Jólamarkaðurinn Jólakötturinn verður á Egilsstöðum um helgina, jólatré verða seld í Vaglaskógi á föstudag og laugardag og nú er seinni helgin fram undan með jólafjöri í Haukadalsskógi þar sem fólk getur komið og sagað sér jólatré. Þar var líf og fjör um síðustu helgi. Mikið hefur líka verið að gera í þjóðskógunum síðustu vikur við að sækja torgtré og heimilistré.
Jóhannes Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi, segir að í ár hafi verið tekin um 35 torgtré í þjóðskógunum á Suðurlandi, frá þriggja metra háum upp í tólf metra þau hæstu. Samlegðaráhrif Landgræðslunnar og Skógræktarinnar hafi nú komið sér vel því trén flutti Bjarni Arnþórsson, vélamaður í Gunnarsholti, á bíl í eigu Lands og skógar í stað þess að kalla þyrfti til verktaka.
Alls hafa verið tekin um átta hundruð heimilistré í Þjórsárdal, Haukadal og í Mosfelli, segir Jóhannes. Flest hafa trén verið seld Byko, Kíwanisklúbbnum Keili á Suðurnesjum og Íþróttafélaginu Hamri í Hveragerði. Svo hafa skógarnir verið opnir svo fólk geti átt góðar stundir og náð sér í jólatré með sínu fólki. Um síðustu helgi var jólahlaðborð á Geysi og í tengslum við það koma margir gestir í Haukdalsskóg og velja sér tré. Í Þjórsárdal bauð Starfsmannafélag Landsvirkjunar sínu fólki að koma og finna sér tré. Opið verður í Haukadalsskógi um næstu helgi milli klukkan ellefu og sextán.
Úr þjóðskógum Austurlands verða send um fimm hundruð stofutré að þessu sinni, segir Þór Þorfinnsson skógarvörður, og að venju verður jólatréð í stofu forseta á Bessastöðum fjallaþinur að austan. Sömuleiðis verður að venju sendur fjallaþinur til Runavíkur í Færeyjum, vinabæjar Egilsstaða. Þá verður hinn árlegi jólamarkaður Jólakötturinn haldinn í Landsnetshúsinu á Egilsstöðum laugardaginn 14. desember.
Veggtré njóta vaxandi vinsælda við verslanir og fyrirtæki eystra eins og hér má sjá dæmi um:
Í Vaglaskógi verða jólatré til sölu á föstudag og laugardag, 13. og 14. desember, ásamt greinum og ýmsum öðrum afurðum úr skóginum. Rúnar Ísleifsson, skógarvörðurinn á Norðurlandi, segir að jólatré úr norðlensku skógunum verði vart fleiri en 70-80 þetta árið. Skógarbændur hafa að einhverju leyti tekið við keflinu við að útvega jólatré á markaðinn en von er á auknu framboði úr þjóðskógunum nyrðra og eystra eftir nokkur ár ef þörf verður á. Nokkurt hlé varð þar á gróðursetningum til jólatrjáa um hríð en síðustu ár hefur verið gróðursett á ný til að mæta megi mögulegri þörf fyrir jólatré.