Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Ísland með í milliríkjanefnd SÞ um líffjölbreytni og vistkerfisþjónustu

11. apríl 2025

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest aðild Íslands að IPBES, milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfisþjónustu (Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services).

Rjúpa í skógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Frá þessu er sagt í frétt á vef ráðuneytisins. Fram kemur að IPBES hafi verið stofnað árið 2012 og starfi á svipaðan hátt og milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar; IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change). IPBES er einn helsti vettvangur alþjóðlega vísindasamfélagsins til að safna, greina og koma á framfæri grundvallarupplýsingum um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni og veita ráðgjöf á því sviði. IPBES vinnur að því að veita stjórnvöldum og öðrum aðilum áreiðanlegar og vísindalega uppbyggðar upplýsingar um ástand náttúruauðlinda og áhrif mannlegra athafna á líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi, ásamt ráðleggingum um hvernig bæta megi þessa stöðu. Fókus IPBES er á líffræðilega fjölbreytni og hvernig við getum verndað náttúruauðlindir sem eru mikilvægar fyrir lífsgæði okkar og þróun.

Ísland hefur hingað til aðeins verið áheyrnaraðili en með fullri aðild skapast tækifæri til að styrkja framlag Íslands á alþjóðavettvangi og koma íslenskum áherslum betur á dagskrá, meðal annars varðandi málefni norðurslóða. Aðildin er liður í því að styðja við líffræðilega fjölbreytni, líkt og kveðið er á í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.

Um þennan áfanga segir ráðherra í frétt ráðuneytisins:

„Aðild Íslands að IPBES er mikilvægt framfaraskref í þágu líffræðilegrar fjölbreytni. Með þátttökunni gefst okkur tækifæri til að efla sess líffræðilegrar fjölbreytni í íslenskri stjórnsýslu í krafti baklandsins sem IPBES færir okkur. Virk þátttaka Íslands í alþjóðlegum vísindarannsóknum og dýpra alþjóðasamstarf eru lykillinn að því að hámarka árangur Íslands í þessum efnum.“

Fréttin á vef umhveris-, orku- og loftslagsráðuneytisins