Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Þessi frétt er meira en árs gömul

Hvatningarverðlaun til Loftslagsvæns landbúnaðar

19. nóvember 2021

Loftslagsvænn landbúnaður sem er samstarfsverkefni, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hlýtur hvatningarviðurkenningu á Reykjavíkurborgar og Festu 2021. Í verkefninu vinna nú 40 bændur að verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni.

Hvatningarverðlaun til Loftslagsvæns landbúnaðar

Tilkynnt var um viðurkenninguna á loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar sem fram fór í Hörpu í dag, 19. nóvember. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Líf Magneudóttir, formaður dómnefndar, afhentu viðurkenninguna.

Verkefnið hefur stækkað jafnt og þétt. Það hófst í ársbyrjun 2020 þegar fimmtán sauðfjárbúum var boðin þátttaka en nú eru um 40 sauðfjár- og nautgripabýli þátttakendur. Hvert bú starfar að verkefninu í fjögur til fimm ár í senn. Fulltrúar Landgræðslunnar, RML og Skógræktarinnar stýra verkefninu en jafnframt kemur að því fjölbreyttur hópur ráðgjafa frá fyrrgreindum stofnunum. Þátttakendur fá alhliða ráðgjöf og fræðslu um það hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi á viðkomandi búi og losun vegna landnýtingar. Verkefnið er fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Vonast er til að verkefnið haldi áfram að stækka og þátttakendum að fjölga.

Berglind Ósk Alfreðsdóttir, verkefnastjóri Loftslagsvæns landbúnaðar, segir að grasrótarnálgun sé í senn upplegg verkefnisins og styrkur. „Hvert þátttökubú setur sér skriflega aðgerðaáætlun sem tekur mið af aðstæðum og möguleikum. Aðgerðaáætlunin er endurskoðuð árlega og er verkfærakista þátttakenda til að vinna að loftslagsvænum landbúnaði. Í henni kemur fram hvernig dregið skuli úr losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbinding aukin i búrekstrinum. Þátttakendur vinna þannig markvisst að settum markmiðum í daglegum bústörfum. Þessi nálgun hvetur bændur til aðgerða og hefur jákvæð áhrif á nærsamfélagið“ segir Berglind Ósk.

Texti: Pétur Halldórsson

Heimild: Dúi J. Landmark

Hvatningarverðlaun til Loftslagsvæns landbúnaðar-image-0
Hvatningarverðlaun til Loftslagsvæns landbúnaðar-image-1