Góður starfsmannafundur
13. nóvember 2024
Tækifæri til aukinnar samvinnu fagsviða og starfsfólks Lands og skógar voru meðal umfjöllunarefna á vel heppnuðum starfsmannafundi stofnunarinnar nýverið. Eitt af því sem tekið var fyrir var hvernig starfsfólkið getur nú þegar nýtt sér spunagreind til aðstoðar við dagleg störf.
Fundurinn var haldinn í Sjálandi Garðabæ fyrsta nóvember. Að sögn Ágústs Sigurðssonar, forstjóra Lands og skógar, var hann feikilega vel heppnaður. Þar sem starfstöðvar stofnunarinnar eru dreifðar um landið hafi þetta veið kærkomið tækifæri til að hittast öll á sama stað og mikils um vert að nýta daginn vel.
„Dagskráin á starfsdeginum einkenndist af því að við erum á fyrsta starfsári, erum að sameina starfsemi tveggja stofnana og fólkið okkar er mjög dreift um landið,“ segir Ágúst. Í upphafi starfsdags hafi verið farið stuttlega yfir hvar nýja stofnunin væri stödd nú þegar tíu mánuðir eru liðnir hjá stofnun hennar.
„Þá fengum við afar áhugaverð erindi um meðal annars hvernig við getum nýtt okkur hið skapandi samspil einingar og óeiningar og hvernig við byggjum upp liðsheild og árangursríka teymisvinnu þegar starfstöðvar eru um allt land og starfsfólk hittist sjaldan í eigin persónu. Jafnframt voru tekin dæmi um tækifæri til aukinnar samvinnu fagsviða og starfsfólks LOGS. Þá fórum við yfir hvernig spunagreind getur strax í dag orðið okkur til aðstoðar í daglegum störfum.“
Starf öryggisnefndar og fræðslunefndar LOGS var kynnt á starfsmannafundinum og einnig var setið á rökstólum um stofnun starfsmannafélags fyrir hina nýju stofnun. Starfsdagurinn endaði svo á skemmtilegri samveru þar sem meðal annars kom fram nýstofnuð hljómsveit LOGS við mikinn fögnuð viðstaddra.
Meðfylgjandi mynd var tekin af hópnum í fjörunni við Sjáland í Garðabæ í góða veðrinu fyrsta nóvember. Eins og sjá má er þarna bróðurparturinn af starfsfólki Lands og skógar saman kominn frá þeim nítján stöðum á landinu sem starfsemin dreifist á.