Þessi frétt er meira en árs gömul
Brjóstmyndin fundin!
10. október 2022
Höfuðið af brjóstmynd skáldsins Þorsteins Valdimarssonar sem hvarf úr Hallormsstaðaskógi um miðjan ágúst í sumar er fundið. Gripurinn fannst fyrir tilviljun í heimahúsi á Egilsstöðum.
Sagt var frá því á skogur.is tólfta ágúst að brjóstmyndin, sem staðið hafði í Trjásafninu í Mörkinni á Hallormsstað í áratugi til minningar um Þorstein, væri horfin. Þorsteinn var bæði var þekkt ljóðskáld og starfaði öðru hverju hjá Skógræktinni á Hallormsstað sem sumarstarfsmaður. Brjóstmyndin stóð á stuðlabergsstöpli á staðnum sem Þorsteinn kallaði Svefnósa og bjó gjarnan í tjaldi þau sumur sem hann vann í skóginum.
Höfuðið á brjóstmyndinni var brotið af undirstöðu sinni og numið á brott. Töluverð leit var gerð í skóginum, sérstaklega í næsta nágrenni við Svefnósa en hún bar engan árangur. Málið var kært til lögreglu en rannsókn hennar hafði engan árangur borið þar til fyrir helgi þegar lögreglumenn voru staddir í heimahúsi á Egilsstöðum vegna allt annars verkefnis. Þar sá vökult auga lögreglumanns listaverkið sem horfið hefur verið í slétta tvo mánuði. Íbúi þar kvaðst hafa fundið höfuðið í runna.
Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum er framhald málsins nú í höndum Skógræktarinnar og aðhefst lögregla ekki frekar nema lögð verði fram kæra. Í fljótu bragði telur lögregla ekki að listaverkið hafi verið fjarlægt til að koma málminum úr því í verð því ef svo væri hefði það trúlega aldrei komið í leitirnar.
Mestu skiptir í þessu máli að höggmyndin skuli vera fundin og komin í vörslu Skógræktarinnar. Nú verður hugað að því hvernig megi koma listaverkinu á sinn stað á stallinum í Svefnósum í Trjásafninu á Hallormsstað, gestum skógarins til fróðleiks og yndisauka og til minningar um skáldið og hugsjónamanninn Þorstein Valdimarsson.
Texti: Pétur Halldórsson