Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Þessi frétt er meira en árs gömul

Bændur áhugasamir um loftslagsvænni landbúnað

3. mars 2020

Fjórum námskeiðum er nú lokið í námskeiðaröðinni Loftslagsvænn landbúnaður sem fram fer um þessar mundir í öllum landshlutum. Góðar umræður hafa skapast á námskeiðunum og fólk er áhugasamt um málefnið. Sauðfjárbændur sem lokið hafa námskeiðinu geta sótt um formlega þátttöku í samnefndu verkefni.

Bændur áhugasamir um loftslagsvænni landbúnað

Námskeið hafa þegar verið haldin á Hvanneyri, Höfn í Hornafirði, Selfossi og í Saurbæ í Dölum. Námskeiði sem vera átti á Egilsstöðum 26. febrúar var frestað og verður í staðinn haldið í kringum 10. mars.

Fyrirlesarar á námskeiðunum koma frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Landgræðslunni og Skógræktinni. Snorri Þorsteinsson, ráðunautur hjá RML, tók meðfylgjandi mynd. Hann segir að námskeiðin gangi vel. Þar hafi skapast flottar umræður og fólk sé almennt áhugasamt um málefnið. Í sama streng tekur Guðfinna Harpa Árnadóttir ráðunautur sem var á námskeiðinu á Höfn og sagði það hafa heppnast mjög vel.

Á námskeiðunum gefst þátttakendum kostur á að efla þekkingu sína á loftslagsmálum og hvaða aðgerðir eru vænlegar til árangurs, svo sem með breyttri landnýtingu, ræktun, áburðarnotkun og fóðrun.

Í framhaldi af námskeiðunum verður auglýst eftir formlegri þátttöku í verkefninu. Aðeins þeir sem hafa lokið námskeiðinu Loftslagsvænum landbúnaði og eru í gæðastýrðri sauðfjárrækt geta fengið aðild að verkefninu með tilheyrandi stuðningi sem fjallað er um á námskeiðunum.

Næstu námskeið verða á morgun, 4. mars, við Eyjafjörð og á Hvolsvelli. Um framhaldið skal bent á vefinn rml.is en einnig má leita upplýsinga í síma 516 5000.

Texti: Pétur Halldórsson