Auðn breytist í gróið land með birki
11. júlí 2024
Uppgræðsla gengur vel á um 1.500 hektara svæði á Rangárvöllum þar sem unnið er að því að endurheimta gróðurþekju, efla staðargróður og örva útbreiðslu birkis. Landsvirkjun stendur að verkefninu í samvinnu við Land og skóg. Markmiðið er að græða upp lítt gróið land og að draga úr áhrifum gróðurhúsalofttegunda með bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri en þarna hafa einnig verið lagðir slóðar sem gera kleift að nýta svæðið til útivistar.
Árið 2013 hófst samstarf mill Landsvirkjunar og Landgræðslunnar (nú Lands og skógar) um kolefnisbindingu með uppgræðslu lands á um 260 hektara landssvæði í Koti og Steinkrossi á Rangárvöllum. Síðan hefur samningssvæðið stækkað upp í 1.500 hektara samliggjandi svæði sem nær nú einnig til jarðanna Víkingslækjar og Bolholts. Landsvirkjun greiðir allan kostnað við verkefnið.
Þessar tvær myndir hér að neðan sýna muninn á hluta svæðisins frá því að aðgerðir hófust.
Landið var allt frá því að vera lítt grónir melar yfir í sandi orpin hraun sem eru mjög erfið yfirferðar. Lögð hefur verið áhersla á styrkja staðargróður með áburðargjöf. Kjötmjöli er dreift þar sem aðstæður hafa hentað til slíkrar dreifingar en tilbúinn áburður nýttur þar sem land er erfiðara yfirferðar. Innan um eru svæði sem metin hafa verið svo erfið yfirferðar að þar verður ekki ráðist í neinar aðgerðir en þau munu engu að síður njóta góðs af aukinni grósku allt um kring.
Þegar gróðurframvinda er komin í gang og frostlyfting til að mynda verið stöðvuð er birki gróðursett á völdum stöðum í því augnamiði að það sái sér af sjálfsdáðum út í aðliggjandi svæði. Þetta er sama aðferð og gefið hefur góða raun í Hekluskógaverkefninu þar sem birki er gróðursett í svokallaðar „eyjar“ sem gegna hlutverki fræbanka fyrir svæðin í kring. Að auki voru þegar til staðar fullvaxta birkiplöntur innan og í námunda við uppgræðslusvæðið. Þær hafa sáð sér yfir í hluta af svæðinu. Að óbreyttu verður svæðið með tímanum blanda af endurheimtu mólendi og gróskumiklu birkiskóglendi.
Í næsta nágrenni við umrætt svæði er Bolholtsskógur sem er í umsjón Skógræktarfélags Rangæinga. Vinnuslóðar sem lagðir hafa verið um samningssvæðið tengjast samsvarandi slóðum í Bolholtsskógi. Þeir nýtast annars vegar við uppgræðslustarfið, bæði við áburðargjöf og gróðursetningu, en í framtíðinni verða þeir útivistarleiðir á svæðinu. Slóðarnir eru samtals á bilinu 30-40 kílómetrar að lengd.
Með þessu verkefni Landsvirkjunar í samvinnu við Land og skóg nást því mörg markmið. Uppblásið land sem er til lítilla nytja og losar jafnvel kolefni breytist í gróið land sem bindur kolefni, byggir upp fjölbreytt og heilbrigt gróðurlendi sem verður búsvæði fugla og fleiri lífvera en líka skemmtilegt útivistarsvæði fyrir fólk.