Þessi frétt er meira en árs gömul
Á vakt fyrir Ísland
18. október 2023
Gróðureldar í nútíð og framtíð verða meðal umfjöllunarefna á fjórðu námstefnu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem fram fer á 20. og 21. október undir yfirskriftinni Á vakt fyrir Ísland. Björn Traustason, fagstjóri landupplýsinga hjá Skógræktinni, miðlar þar af reynslu sinni af spágerð um útbreiðslu skóga á landinu með hlýnandi loftslagi og starfi að vörnum gegn gróðureldum.
Námstefnan fer fram á Reykjavík Natura Berjaya hótelinu í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Markmið námstefnunnar er að efla þekkingu og færni félagsmanna í starfi, efla og hlúa að samstarfi björgunaraðila og efla samkennd og tengsl meðal félagsmanna og annarra björgunaraðila.
Fjölbreytt málefni verða tekin fyrir þessa tvo daga sem tengjast eldvarnamálum og þjónustu bráðaliða. Meðal dagskrárliða fyrri daginn er málstofa sem kallast Gróðureldar – nútíð og framtíð. Þar tala Lárus Kr. Guðmundsson, varaslökkvistjóri Brunavarna Árnessýslu, Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, Halldór Björnsson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands og Björn Traustason, fagstjóri landupplýsinga hjá Skógræktinni.
Björn Traustason er landfræðingur og hefur yfirumsjón með landupplýsingum hjá Skógræktinni. Eitt af verkefnum hans í gegnum tíðina hefur verið að greina mögulega útbreiðslu trjágróðurs út frá sviðsmyndum um hnattræna hlýnun. Hann var fulltrúi Skógræktarinnar í stýrihópi um gróðurelda sem skilaði skýrslu um varnir og viðbrögð við gróðureldum árið 2018. Björn er einnig formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og er sem slíkur í viðbragðshópi vegna gróðureldahættu á höfuðborgarsvæðinu.
Halldór Björnsson er doktor í veður- og haffræði og hefur unnið mikið með veður- og haf og hafíslíkön við erlenda háskóla og frá aldamótum á Veðurstofu Íslands. Rannsóknir hans hafa einnig beinst að tölfræðilegri úrvinnslu veðurfarsgagna, auk rannsókna á vindorku, veðri á Íslandi, sjávarflóðum og eðlisfræði gosmakka. Hann hefur tekið þátt í ýmsum rannsóknarverkefnum, bæði innlendum og erlendum, setið í stjórn Vísindaráðs og tekið þátt starfsemi stýrnefnda stórra erlendra verkefna. Halldór hefur í þrígang verið í forystu vísindanefndar um loftslagsbreytingar við útgáfu matskýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi, fyrst 2008, svo 2018 og nú árið 2023.
Texti: Pétur Halldórsson