Starfsemi bráðamóttöku HSU, Selfossi
22. október 2024
Bráðamóttaka HSU Selfossi þjónustar stórt umdæmi og er opin allan sólarhringinn alla daga ársins.


Bráðamóttaka sinnir bráðum veikindum og slysum. Sjúklingar eru metnir af hjúkrunarfræðingi og út frá alvarleika ástæðu komu og ásigkomulagi og er raðað í 5 mismunandi flokka eftir bráðleika. Í sumum tilvikum gæti hjúkrunarfræðingur ráðlagt fólki að leita í aðra þjónustu en bráðaþjónustu ef erindi komunnar er ekki brátt. Flokkur 1. þolir ekki bið, viðkomandi er í lífshættu og þarf læknisþjónustu tafarlaust. Flokkur 5 er ekki í lífshættu og þolir þar af leiðandi bið. Þeir sem eru í flokki 4. og 5. þurfa að bíða lengur en þeir sem eru í flokki 3. óháð komutíma hvers og eins. Ef mörg aðkallandi og alvarleg mál eru á deildinni á sama tíma getur biðin orðið löng.
Starfsfólk Bráðamóttöku reynir eftir fremsta megni að þjónusta fólk eins fljótt og örugglega og aðstæður bjóða upp á. Þjónusta er skert frá 23:50-08:00 alla daga, en á næturnar er lágmarksmönnun og hefðbundnar rannsóknir eins og blóð- og röntgennnsókn eru ekki aðgengilegar. Starfsfólk deildarinnar metur hvaða sjúklinga þarf að flytja til Reykjavíkur á þessum tíma, hverjum er hægt að sinna á Selfossi án þessara rannsókna að næturlagi og hverjir geta komið aftur á dagvinnutíma í viðeigandi uppvinnslu. Við bendum á þjónustu 1700 sem einnig er opin allan sólarhringinn og getur aðstoðað fólk með hvert er best að leita og hvenær.
Yfirlæknir Bráðamóttöku HSU