Nýr forstöðumaður upplýsingatæknisviðs HSU segir starfsandann einstakan og fólkið opið fyrir nýjungum
15. apríl 2025
VIÐTAL // Daði Már Sigurðsson, deildarstjóri upplýsingatæknisviðs HSU

Daði Már Sigurðsson hefur verið ráðinn deildarstjóri nýs upplýsingatæknisviðs HSU. Hann hóf störf í september 2024. Daði Már er fæddur og uppalinn á Selfossi, gekk í FSU og nam síðan kerfisfræði við HR. Þessi þriggja barna faðir og eiginmaður félagsráðgjafa er heimakær, en hefur mikla ástríðu fyrir stangveiði. Teymið hans þróar nú nýja upplýsingatæknistefnu fyrir HSU þar sem hugað er sérstaklega að öryggi, hagkvæmni og þjónustuupplifun.
Selfyssingur í húð og hár
Viðmælandi okkar er fæddur og uppalinn á Selfossi og hans aðalstarfsstöð er á Selfossi þótt allt umdæmið og starfsstöðvar HSU frá Þorlákshöfn til Hafnar falli undir deildina. Hann kláraði stúdentspróf frá FSU af viðskiptabraut. Bætti svo við stúdentsprófið tölvubraut úr Iðnskólanum í Reykjavík og fór þaðan í Háskólann í Reykjavík í kerfisfræði. Hefur síðan klárað ýmsar Microsoft-gráður og kerfisstjóranámskeið hjá Promennt.
Frekar tækni en viðskipti
,,Ég hef alltaf haft gaman af tölvum og tækni og var reglulega eitthvað að fikta í þeim efnum. Eftir stúdentspróf var ég óviss um hvað mig langaði til að læra, skráði mig í viðskiptafræði í Háskóla Íslands, en fann strax að ég hafði engan áhuga á henni. Eftir að hafa prófað tölvubrautina í Iðnskólanum, sem er Tækniskóli Íslands í dag, þá fann ég strax að upplýsingatækni og kerfisstjórn átti mjög vel við mig og ég hélt þess vegna áfram á því sviði.”
Kemur til HSU frá Origo
Daði Már hóf starfsferilinn í upplýsingatækni sem tæknimaður hjá Opnum kerfum meðan hann bjó í Reykjavík. Þegar hann flutti aftur heim á Selfoss starfaði hann hjá TRS sem kerfisstjóri, en kemur til HSU frá Origo þar sem hann vann sem kerfisstjóri.
Samheldið tveggja manna teymi
Upplýsingatæknisviðið er ný deild innan HSU, en þessum málaflokki var áður nánast alfarið úthýst til þjónustuaðila. Brad Alexander Egan gekk svo til liðs við teymið í mars 2025. ,,Brad hefur þjónustað stofnunina til margra ára og því mikill fengur að fá hann til liðs við okkur. Við tveir störfuðum lengi saman hjá TRS hérna á Selfossi á sínum tíma og þekkjum hvorn annan vel. Brad hefur sinnt notenda- og tækniþjónustu hjá HSU til fjölda ára og gengur alltaf hreint til verks,” segir Daði Már.
Víðtæk starfslýsing
Við spyrjum Daða Má um starfslýsingu hans. ,,Ég sinni eftirliti og umsjón með upplýsingatæknistefnu HSU, innkaupum á tölvu- og tækjabúnaði, innleiðingu á nýjum kerfum, samskiptum og samningamálum við þjónustu-og rekstraraðila kerfa, rekstri á útstöðva-og hjálparbeiðnakerfi ásamt almennu kerfisstjórahlutverki og því sem fylgir. Starfið er ansi fjölbreytt og nær að teygja sig á hin ýmsu svið þar sem öll þurfa að nota stafrænar lausnir í dag.”
Ný UT-stefna í mótun
Við forvitnumst stuttlega um nýja upplýsingatæknistefnu HSU, sem er núna í mótun. ,,Í nýrri UT-stefnu HSU verður lögð áhersla á netöryggi, áreiðanleika og aðgengi kerfa ásamt aukinni hagkvæmni með áherslu á að nýta okkur stafrænar lausnir og sjálfvirkni. Við föllum undir evrópsku netöryggislöggjöfina NIS2, sem mun sennilega verða tekin upp hér á landi fljótlega og höfum byrjað vegferð til að uppfylla þau skilyrði sem fylgja þeirri löggjöf. Við viljum því auka almennt netöryggi og verkferla hjá stofnuninni og höfum meðal annars tekið í notkun lausn frá Aftra sem sinnir ytri og innri veikleikaskönnun og lætur okkur vita af þegar þekktir veikleikar finnast í okkar kerfum.”
Valkostagreining og þjónustuupplifun
Daði Már kveður teymið einnig vera að leggja lokahönd á svokallaða valkostagreiningu með Fjársýslu ríkisins. ,,Hún snýr að því að kortleggja upplýsingatækniumhverfi stofnunarinnar og stilla upp valkostum fyrir útboð á ýmsum þáttum þess til að bæta öryggi, hagkvæmni og þjónustuupplifun notenda. Heilbrigðisstofnun Suðurlands er opin allan sólarhringinn og viðbragðstími og vöktun þurfa að vera til staðar í samræmi við það.”
Góður starfsandi
Hvað er best við vinnustaðinn? ,,Það er einstaklega góður starfsandi hérna og það kom mér líka skemmtilega á óvart að flest starfsfólk er opið fyrir nýjungum og breytingum. Það skemmir heldur ekki fyrir hvað það er stutt í vinnuna og ákveðið frelsi að þurfa ekki að ferðast yfir Hellisheiðina daglega. Það eru forréttindi að fá að starfa í sínum heimabæ."
Fjölskyldumaður í stangveiði
Við forvitnumst að endingu um fjölskylduhagi Daða Más og lífið eftir vinnu. ,,Ég er giftur Margréti Önnu Guðmundsdóttur félagsráðgjafa. Við eigum saman þrjú börn: Mikael Þór 15 ára, Evu Katrínu 11 ára og Elvar Már 5 ára. Ég er ansi heimakær og líður best heima hjá mér. Helgarnar eru yfirleitt nokkuð rólegar og fara í að sinna fjölskyldunni og elta dóttur okkar á fótboltamót. Við eigum tíkina Hófí sem er tveggja ára gömul og af tegundinni Coton de Tulear sem fær líka sinn tíma í göngutúrum eftir vinnu. Annars hef ég mikinn áhuga á stangveiði, fótbolta og núna nýlega pílu eftir að ég setti upp píluspjald í bílskúrnum."

Brad Alexander Egan og Daði Már Sigurðsson.