Móttaka gjafa til HSU
27. janúar 2025
Nýverið var formleg móttaka gjafa hjá HSU og öllum forsvarsaðilum frá þeim góðgerðafélagafélögum sem gefið höfðu til stofnunarinnar undanfarið boðið að koma og þiggja kaffiveitingar á HSU og fá góðar þakkir fyrir allar gjafirnar.


Heilbrigðisstofnun Suðurlands er einstaklega lánsöm stofnun með gefendur svo þetta var talsverður hópur sem saman var kominn ásamt stjórnendum HSU.
Þau félög sem undanfarið hafa gefið til HSU og verið var að þakka, eru:
Kvenfélag Selfoss gaf sófa í setustofu á Lyflækningadeild ásamt því að gefa til Heimaspítala HSU Epoc tæki til blóðprufu í heimahúsi.
Oddfellow Rebekkustúka nr. 9 Þóra gaf Líknardeild Lyflækningadeildar fjármagn til að innrétta setustofu fyrir aðstandendur deildarinnar, einnig gaf sama stúka til Foss- og Ljósheima samskonar upphæð sem var notuð til að kaupa hjálpartæki við flutning sjúklinga Sara Steady og lazy boy stóla.
Samband sunnlenskra kvenna gaf til heilsugæslunnar á Selfossi og til heilsugæslunnar í Rangárþingi sitthvort Tanita líkamsgreiningartækið.
Vinafélag öldrunardeilda HSU Selfossi gaf nýtt kaffistell fyrir Ljósheima, rútuferðir starfsfólks deildana, rafmagns Lazy boy og píanó á Móberg (mynd vantar).
Lionsklúbburinn Dynkur á Skeiðum gaf Foss- og Ljósheimum Carendo sturtustól.
Kvenfélag Grímsnes- og Grafningshrepps gaf Foss- og Ljósheimum peningaupphæð og tvo lazy boy stóla.
Lionsklúbburinn Embla gaf Foss- og Ljósheimum lyfjadælur og gjafabréf frá Spilavinum.
Kvenfélag Hveragerðis gaf heilsugæslunni í Hveragerði blöðruskanna.
Öll þessi félagasamtök leggja mikið á sig við að afla fjármagns til allra þessara gjafa sem allar eru kærkomin viðbót við tækjabúnað stofnunarinnar sem bætir aðbúnað og öryggi sjúklinga og starfsmanna.
Það er ómetanlegt að finna þann hlýhug sem svona gjöfum fylgir og aldrei hægt að fullþakka. HSU þakkar innilega fyrir gjafirnar og óskar öllum þessum félagasamtökum velfarnaðar í sínum óeigingjörnu störfum.



















