Fyrstu niðurstöður þjónustukönnunar
10. febrúar 2025
Þjónustukönnun HSU sýnir framúrskarandi viðmót starfsfólks og áreiðanleika upplýsinga


Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) hefur innleitt nýja þjónustukönnun sem send er til þeirra sem leita þjónustu stofnunarinnar.
Fyrstu niðurstöður þjónustukönnunar sýna að almennt eru þjónustuþegar ánægðir með þjónustu HSU. Nú hafa 2226 þjónustuþegar svarað könnuninni og gáfu HSU meðaleinkunnina 4,3 af 5 mögulegum stigum.
Viðmót starfsfólks:
92% þjónustuþega telja viðmót starfsfólks vera mjög gott eða gott. Þetta er til marks um framlag okkar starfsfólks sem leggur sig fram um að veita framúrskarandi þjónustu daglega. Meðaleinkunn fyrir viðmót starfsfólks var 4,6 af 5 mögulegum.
Áreiðanleiki upplýsinga:
89% svarenda töldu upplýsingar frá HSU áreiðanlegar, á meðan 7% töldu þær óáreiðanlegar. Meðaleinkunn fyrir áreiðanleika upplýsinga var 4,3 af 5 mögulegum.
Hraði þjónustu:
66% svarenda töldu þjónustuna vera mjög hraða eða hraða, en 21% töldu hana hæga. Meðaleinkunn fyrir hraða þjónustu var 3,6 af 5 og var þessi þáttur veikasti þátturinn í könnuninni.
Ábendingar:
Helstu ábendingar um það sem betur mætti fara að mati þjónustuþega var langur biðtími eftir tíma hjá heimilislækni og að niðurstöður rannsókna mætti fylgja betur eftir. Allar ábendingar eru vel metnar og er stuðst við þær í umbótavinnu til að gera þjónustuna enn betri. Það er ánægjulegt að greina frá því að mikil ánægja var með viðmót starfsfólks og margir lýstu því sem framúrskarandi.
Þakkir fyrir þátttöku:
Kannanir sem þessi eru afar dýrmætar fyrir stofnunina. Þær gefa okkur tækifæri til að heyra upplifun notenda og vinna markvisst að umbótum fyrir bættri þjónustu. Við þökkum kærlega fyrir þátttökuna og hvetjum þjónustuþega til að haldi áfram að koma sínum skoðunum á framfæri.