Fréttapóstur HSU, apríl 2025: „Hjartað í HSU“
14. apríl 2025
Hjartað í HSU // Apríl 2025

Hér kynnum við til sögunnar fyrsta fréttapóst HSU, sem við köllum einfaldlega „Hjartað í HSU". Smelltu hérna til að skoða hann (PDF). Einnig er hægt að fletta gegnum myndir á samfélagsmiðlum HSU til að skoða stakar blaðsíður.
Á haustmánuðum 2024 fór Heilbrigðisstofnun Suðurlands af stað með sýnileikaverkefni sem miðar að því að veita innsýn í þann mikla mannauð, sem HSU býr yfir og þau fjölmörgu viðfangsefni sem fólkið okkar fæst við. Með þessu móti dreifum við áhugaverðum upplýsingum til starfsfólks, skjólstæðinga og almennings og bjóðum þeim að kynnast nánar starfseminni og starfsfólkinu.
Við höfum gert þetta með ýmsum hætti, allt frá hefðbundnum fréttum og viðtölum til ,,Mannauðsramma" í léttari kantinum og myndaþátta. Efnistökin hafa verið frá öllu umdæminu. Allt efni birtum við síðan bæði á vef HSU og samfélagsmiðlum stofnunarinnar á Facebook, Instagram og Linkedin. Verkefnið hefur mælst mjög vel fyrir og stuðlað að auknum sýnileika HSU.
Fréttapósturinn er liður í þessu sama sýnileikaverkefni. Þar tökum við saman helsta efni hvers mánaðar og bætum sömuleiðis við nýju efni, sem einnig mun rata á vef og samfélagsmiðla HSU. Við ætlum að leyfa tíðninni aðeins að þróast, en stefnum engu að síður á mánaðarlegan fréttapóst til að byrja með.
Þess má geta að aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu nota þetta birtingarsnið -- fréttapóst eða fréttabréf -- sömuleiðis til að taka saman efni hvers mánaðar og koma starfseminni á framfæri. Þar má til dæmis nefna Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri.