Þessi frétt er meira en árs gömul
Græn skref í ríkisrekstri uppfyllt
19. maí 2023
Græn skref í ríkisrekstri


Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur lokið fimmta og síðasta skrefi Grænna skrefa í ríkisrekstri. Að baki hverju Grænu skrefi eru 25-40 aðgerðir svo mikið hefur unnist í umhverfismálum stofnunarinnar á þessum tíma.
Verkefnið hófst í desember 2021 sem þýðir að mikill gangur hefur verið í þessari vinnu meðal starfsfólks. Samkvæmt loftlagsstefnu HSU ætlar stofnunin að vera til fyrirmyndar í sjálfbærni og leggja sitt af mörkum í baráttunni við loftlagsbreytingar. Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur skuldbundið sig til að huga vel að öllum umhverfismálum innan stofnunarinnar og hefur útbúið verkferla og áætlanir í takt við það.
Samkvæmt græna bókhaldinu sem skilað er inn til Umhverfisstofnunar ár hvert hefur stofnunin náð miklum árangri í úrgangsmálum, en flokkun hefur aukist ásamt því að blandaður úrgangur hefur minnkað. Einnig hefur orðið mikill samdráttur í losun frá akstri með tilkomu rafmagnsbíla.
Helstu markmið verkefnisins eru:
Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar
Efla umhverfisvitund starfsfólks
Draga úr rekstrarkostnaði
Auka vellíðan starfsfólks og bæta starfsumhverfi þeirra



