Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Bókaormur og lyftingakona sem fór í trilluróðra og vann í fiski, en ætlaði alltaf að verða hjúkrunarfræðingur

21. febrúar 2025

Margrét Andersdóttir, aðstoðardeildarstjóri Móbergs, hjúkrunarheimilis HSU á Selfossi.

Margrét Andersdóttir

Margrét Andersdóttir er aðstoðardeildarstjóri Móbergs, hjúkrunarheimilis HSU á Selfossi. Heimilisfólk á Móbergi er 60 talsins og í verkahring starfsfólks er að veita skjólstæðingum fyrsta flokks umönnun, skapa þeim gott heimili og umhverfi, stytta þeim stundir og veita þeim persónumiðaða þjónustu. Á Móbergi starfa um 90 manns á öllum aldri. Viðmælandi okkar er fædd á Landspítala við Hringbraut hinn 1. desember 1989 og eftir að hafa alist upp á höfuðborgarsvæðinu í áratug fluttist hún austur á Fáskrúðsfjörð þar sem hún stundaði trilluróður og fiskvinnslu sem unglingur. Hún nam seinna hjúkrunarfræði á Akureyri og festi fljótlega rætur eftir það á Suðurlandinu. Margrét er bókaormur sem hefur gaman af líkamsrækt og lyftingum. Ef hún væri ekki hjúkrunarfræðingur, þá væri hún kannski lífeindafræðingur eða rafvirki... eða fiskvinnslukona.

MENNTAVEGURINN
,,Menntavegurinn var óvenju margbreyttur. Ég var fyrst í leikskólanum Arnarborg í Breiðholti, var svo einn vetur í Breiðholtsskóla og fór síðan í Flataskóla í Garðabæ. Um aldamótin fluttum við fjölskyldan austur á Fáskrúðsfjörð og ég lauk grunnskólagöngu minni í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann á Egilsstöðum þar sem ég lauk stúdentsprófi. Ég lærði hjúkrunarfræði í Háskólanum á Akureyri og er með eina viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands."

FYRRI STÖRF?
,,Ég var mikið í sveit hjá ömmu minni og frænda þegar ég var barn. Fékk seinna að fara nokkra róðra með frænda mínum á trillu og það eru líklega mín fyrstu skref í einhvers konar vinnu. Ég vann eitt sumar í unglingavinnunni þegar ég var 13 ára, en sumrin eftir það vann ég hraðfrystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Mér finnst alltaf gaman að hugsa til baka til þess tíma. Við vinkonurnar reiknuðum nefnilega alltaf launin okkar í hversu margar Diesel-gallabuxur við gætum keypt okkur."

FYRSTU SKREFIN Í HEILBRIGÐISGEIRANUM
,,Ég byrjaði að vinna við aðhlynningu á hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði 16 ára gömul, undir handleiðslu móður minnar sem er yndislegur, frábær og klár sjúkraliði. Það var dýrmætur tími að fá að vinna með henni, hún kenndi mér svo gríðarlega margt og er mikill áhrifavaldur fyrir mig faglega. Ég flutti til Reykjavíkur 2010 og fór fljótlega að vinna við aðhlynningu á Hrafnistu í Reykjavík. Sumarið 2013 þurfti ég hins vegar aðeins að fá að breyta til og vann eitt sumar í kerskálanum í Alcoa Fjarðarál. Þegar ég byrjaði í hjúkrunarfræðinni þá vann ég sem hjúkrunarnemi á Hrafnistu í Reykjavík, en fór svo þaðan á lungnadeildina á Landspítala."

FLYTUR Á SELFOSS
,,Sumarið sem ég útskrifaðist úr hjúkrunarfræðinni langaði mig að færa út kvíarnar þekkingarlega séð og breyta aðeins til, svo að ég flutti á Selfoss með þáverandi kærasta og núverandi manni og  var í sumarafleysingu á bráðamóttökunni og lyflækningadeildinni á Selfossi. Við þurftum að flytja aftur til Reykjavíkur meðan maðurinn minn var að klára námið sitt svo að ég fór aftur á lungnadeildina."

SAMEINAÐAR MÆÐGUR
,,Það er dálítið skemmtilegt að segja frá því, en mamma mín byrjaði þá einnig að vinna á lungnadeildinni svo að við vorum sameinaðar á ný um stund. Ég flutti síðan aftur austur fyrir fjall eftir að maðurinn minn lauk náminu sínu 2019 og í þetta skipti á Stokkseyri."

FÆRÐI SIG NÆR HEIMAHÖGUM
,,Eftir tvo ævintýralega vetur af akstri yfir Hellisheiðina eða gegnum Þrengslin ákvað ég að finna mér vinnu nær heimahögum. Vorið 2022 byrjaði ég því að vinna á Foss- og Ljósheimum, öldrunardeildum HSU á Selfossi. Ég reyndi eins og ég gat að taka þátt í opnuninni á Móbergi, en fór svo í fæðingarorlof frá lokum nóvember 2022 til loka mars 2023. Þegar ég kom úr fæðingarorlofi fór ég alfarið yfir á Móberg."

HVAÐ MEÐ ÖLDRUNARHJÚKRUN?
,,Þegar kemur að því að vinna við öldrun, þá er þetta afskaplega fjölbreyttur hópur fólks, með margvísleg viðfangsefni, vandamál og sjúkdóma. Þetta fólk hefur lifað litríku lífi og saga hvers og eins er svo sérstök. Það er svo erfitt að koma þessu í orð, en þetta er bara svo fjölskrúðugt, dásamlegt, erfitt og krefjandi en jafnframt gefandi og skemmtilegt. Það eru engir tveir dagar eins, ég læri eitthvað á hverjum degi!"

VERKAHRINGUR AÐSTOÐARDEILDARSTJÓRANS
,,Starfið mitt er rosalega fjölbreytt og skemmtilegt. Sem aðstoðardeildarstjóri er ég talsvert flæðandi á skrifstofunni og síðan á gólfinu. Þjónustan við heimilisfólk er í öndvegi hjá okkur. Það felst í góðu þverfaglegu starfi milli hjúkrunarfræðinga, lækna, sjúkraliða og sjúkraþjálfara. Við verðum að vera með yfirsýn yfir heilsu, meðferð og líðan heimilisfólksins. Passa upp á gæði þjónustu okkar með því að fylgja gæðavísum. Tryggja góð samskipti og upplýsingaflæði milli okkar og aðstandenda þeirra, skipuleggja fjölskyldufundi og annað slíkt. Hafa yfirsýn yfir mönnun á deildum, líðan starfsfólks og tryggja gott upplýsingaflæði til þeirra. Síðan fellur ýmislegt annað til tengt starfsmannamálum, svo sem Vinnustundin, vaktaskýrslur, dagplön og annað. Þetta er svona brot af því sem fylgir starfinu á skrifstofunni. Þegar ég tek vaktir á gólfinu er þetta ósköp venjulegt hjúkrunarfræðingsstarf, aðhlynning og umönnun, samtöl við heimilisfólk og aðstandendur, klínísk verk, lífsmarkamælingar, ýmis möt, yfirsýn yfir lyfjagjafir og svo framvegis."

BEST VIÐ VINNUSTAÐINN?
,,Hvað hann er fjölbreyttur og skemmtilegur. Það eru engir tveir dagar eins. Móberg er nýlegt hjúkrunarheimili með alls konar áskoranir. Það er margt komið í góðan farveg hjá okkur en það er líka ýmislegt sem við erum að reyna að gera betur. Það er svo gaman og dýrmætt að sá hugmyndum, leggja vinnu og metnað í verkið og sjá það verða að veruleika. Starfshópurinn er mjög fjölmenningarlegur. Við erum alls konar, með ólíka bakgrunna, reynslu og þekkingu. Það gerir okkur að sterkri heild."

FJÖLSKYLDUHAGIR?
,,Maðurinn minn heitir Ingþór Zóphoníasson, hann er meistari í kjötiðn, en vinnur hjá Icelandic Glacial Water. Við eigum tvö börn, Anders Orra sem er fjögurra ára og Indíönu sem er tveggja ára.

LÍFIÐ UTAN VINNU
,,Tilveran eftir að vinnudeginum sleppir er stórskemmtileg. Fjölskyldulífið tekur vissulega stóran hluta af tímanum, en ég reyni sömuleiðis að stunda eitthvað form af líkamsrækt nokkrum sinnum í viku. Helst lyftingar. Ég get ekki imprað nógu mikið á því hvað það er mikilvægt að vera hraustur á sál og líkama, sérstaklega í þessu starfi. Mér finnst líka mjög gaman að baka og borða góðan mat. Það verður auðvitað að vera jafnvægi í þessu öllu saman! Mér finnst gaman að lesa og hlusta á bækur. Er reyndar með sjö bóka stafla á náttborðinu mínu sem mætti ganga hraðar með, en þetta er allt í vinnslu. Mér finnst líka gaman að horfa á þætti og myndir!"

EN HVERS VEGNA HJÚKRUNARFRÆÐINGUR?
,,Mig langaði bara alltaf til að verða hjúkrunarfræðingur! Eftir því sem ég eltist fann ég það alltaf sterkara að mig langaði að vinna með fólki, en vinna samt sjálfstætt. Mig langaði til að búa yfir þekkingu og geta aflað mér meiri þekkingar, en vinna á sama tíma fjölbreytilegt starf. Og þetta virðist allt vera að smella saman. Ég fann það í starfinu við aðhlynningu að þegar fagfólk gaf sér tíma til að kenna mér sérhæfðari verk þá var þetta eitthvað sem mig langaði að gera og öðlast meiri færni í. Einnig finnst mér það gríðarlegur kostur hvað það felst mikið starfsöryggi í því að vera hjúkrunarfræðingur."

EITT AÐ LOKUM... EF EKKI HJÚKRUNARFRÆÐINGUR, HVAÐ ÞÁ?
,,Það væri örugglega eitthvað sem tengdist tölum og reikningi. En mér finnst lífeindafræði einnig mjög spennandi og kannski væri ég bara rafvirki. Suma daga langar mig reyndar aftur í frystihúsið, hlusta á skemmtilega hljóðbók og flaka fisk -- og reikna launin mín í gallabuxum, en set það með fyrirvara vegna fortíðarþrár."

Emerly, Robelyn, Thessa og Razel

Emerly, Robelyn, Thessa og Razel.

Dagný aðstoðardeildarstjóri, Helga Sólveig, Scherly og Þóra

Dagný aðstoðardeildarstjóri, Helga Sólveig, Scherly og Þóra.

Jit og Kitiya

Jit og Kitiya.

Systurnar Deanne og Dia Marie

Systurnar Deanne og Dia Marie.

Dögg skrifstofustjóri og Margrét.

Dögg skrifstofustjóri og Margrét.

Margrét Andersdóttir, aðstoðardeildarstjóri Móbergs.

Margrét Andersdóttir, aðstoðardeildarstjóri Móbergs.