Útgáfuhóf í tilefni ritsins Hæstiréttur í hundrað ár - saga
17. febrúar 2022
Í gær, miðvikudaginn 16. febrúar, voru 102 ár frá því að Hæstiréttur Íslands tók til starfa. Þá fór fram útgáfuhóf í Hæstarétti í tilefni útgáfu bókarinnar Hæstiréttur í hundrað ár – saga. Jafnframt var boðið haldið til að fagna ritinu Hæstiréttur í hundrað ár – ritgerðir, en ekki var unnt á sínum tíma að koma saman í tilefni af útgáfu þeirrar bókar vegna heimsfaraldursins.
Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, og Arnþór Gunnarsson sagnfræðingur, höfundur ritsins Hæstiréttur í hundrað ár – saga, héldu stutt erindi. Í máli Benedikts komu fram þakkir til allra þeirra sem komu að útgáfu ritanna. Þá kom meðal annars fram:
„En hvaða lærdóm má draga af þessari sögu og bókinni? Hér er ekki vettvangur til að fjalla ítarlega um það efni. Ég ætla hér aðeins að nefna eitt atriði. Ég tel að draga megi þann lærdóm af þessari sögu að sjálfstæði dómsvaldsins er ekki sjálfgefið. Um það þarf að standa vörð. Það segir þessi saga okkur. Jafnframt getum við ráðið af þessari sögu að tekist hefur að verja dómsvaldið og sjálfstæði þess. Hér er mikið í húfi því sjálfstætt dómsvald er forsenda þess að fyrir hendi sé réttarríki. Margir líta ef til vill á það sem gefinn hlut í okkar þjóðfélagi að við búum við sjálfstætt dómsvald en hér má aldrei sofna á verðinum. Ég vil leyfa mér að líta svo á að sú staðreynd að dómsvaldið hér á landi hefur verið sjálfstætt allar götur frá því Hæstiréttur tók til starfa árið 1920, og rétturinn hefur sjálfur jafnframt gætt að því að ytri ásýnd hans undirstriki þetta sjálfstæði, sé megin ástæða þess að Hæstiréttur hefur alla tíð að því er best verður séð notið trausts þjóðarinnar.“
Meðfylgjandi myndir voru teknar við þetta tilefni.
Ljósmyndari: Gunnar Sverrisson