Heimsókn í Hæstarétt og þjóðþing Japans
20. nóvember 2023
Í nóvember stóð Lögfræðingafélag Íslands fyrir ferð til Japans. Hæstiréttur Íslands tók þátt í henni en fimm dómarar og skrifstofustjóri réttarins voru með í för.
Þriðjudaginn 7. nóvember fór hópurinn í Hæstarétt Japans og átti fund með Saburo Tokura, forseta Hæstaréttar Japans og Yasumasa Nakamine, dómara við réttinn. Í fyrirsvari af hálfu Íslendinganna var Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar. Hann og forseti Hæstaréttar Japans lögðu áherslu á að þótt ríkin væru að mörgu leyti ólík byggðu þau á sömu gildum sem einkum væru mannréttindi og að standa vörð um réttarríkið.
Miðvikudaginn 8. nóvember fór hópurinn í skoðunarferð í japanska þjóðþingið. Þar áttu forseti Hæstaréttar, Ólafur Þór Hauksson, formaður Lögfræðingafélagsins og héraðssaksóknari, Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, og Stefán Haukur Jóhannsson, sendiherra Íslands í Japan, fund með Shinako Tsuchiya, ráðherra enduruppbyggingarmála, og þingmönnum Satoshi Hamada, Mitsuko Ishii og Ryuhei Kawada.