Fara beint í efnið
Hæstiréttur Íslands Forsíða
Hæstiréttur Íslands Forsíða

Hæstiréttur Íslands

Dómur um skilyrði endurupptöku hæstaréttarmáls

23. júní 2022

Hæstiréttur kvað í gær upp dóm í máli um skilyrði endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 478/2014 þar sem M var sakfelldur fyrir umboðssvik í starfsemi G hf. og refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár.

Skjaldarmerki

Með úrskurði endurupptökunefndar í október 2020 var fallist á beiðni M um endurupptöku málsins en nefndin taldi einn dómara málsins hafa verið vanhæfan til að dæma í málinu vegna fjármuna sem hann tapaði á grundvelli samnings við G hf. um eignastýringu frá árinu 2007.

Í dómi Hæstaréttar var rakið að lækkun á andvirði þeirra fjármuna sem dómarinn hafði í eignastýringu hefði numið 14,78% við fall bankans. Þessi lækkun yrði ekki talin veruleg þegar horft væri til þeirra efnahagsáhrifa sem þorri almennings hefði þurft að þola á þessum tíma. Þá vísaði rétturinn til þess að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 34/2019 og 35/2019, þar sem fallist var á að skilyrðum endurupptöku hefði verið fullnægt, hefði verið beint samhengi milli sakargifta og þeirra fjárhagslegu hagsmuna dómara sem fóru forgörðum en því væri ekki fyrir að fara í þessu máli. Enn fremur hefði dómari í því máli orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í bankanum urðu með öllu verðlaus en í þessu tilviki væri um að ræða lækkun á mun hærri höfuðstól í verðbréfasjóði með dreifðar eignir á afmörkuðu tímabili. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ekki yrði talið að dómarinn hefði verið vanhæfur til að fara með málið. Af þeirri ástæðu væri ekki fullnægt lagaskilyrðum fyrir endurupptöku málsins. Aðalkrafa ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var því tekin til greina.


Dóminn má í heild sinni lesa hér.