Dómur um lagastoð skerðingar sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu
6. apríl 2022
Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli einstaklings gegn Tryggingastofnun ríkisins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að lagastoð skorti fyrir skerðingu á sérstakri uppbót á lífeyri sem leiddi af reglugerð og fól í sér að fjárhæð uppbótarinnar skyldi reiknuð í samræmi við hlutfall búsetu lífeyrisþega hér á landi.
Í lögum um félagslega aðstoð er kveðið á um að greiða megi lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess og mælt fyrir um mörk tekna sem miða skal við. Hæstiréttur taldi að með því að binda fjárhæð uppbótarinnar við búsetu hér á landi gæti fjárhæðin skerst þannig að hún næði ekki þeirri lágmarksupphæð sem miðað var við í lögum um félagslega aðstoð. Taldi Hæstiréttur því að áskilnaður um búsetutíma hér á landi samrýmdist ekki tilgangi laga um félagslega aðstoð um að lífeyrisþegar byggju við tiltekna lágmarksframfærslu. Hæstiréttur staðfesti því dóm Landsréttar og var Tryggingastofnun dæmd til að greiða dánarbúi einstaklingsins bætur sem námu skerðingu á uppbót einstaklingsins á árunum 2011 til 2015.