Fara beint í efnið
Hæstiréttur Íslands Forsíða
Hæstiréttur Íslands Forsíða

Hæstiréttur Íslands

Dómur um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 135/2013

5. október 2022

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli um endurupptöku dóms réttarins í máli nr. 135/2013 þar sem X hafði verið sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum samkvæmt 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Endurupptökudómur féllst með úrskurði 30. desember 2021 á beiðni X um endurupptöku málsins.

Hæstiréttur

Í dómi Hæstaréttar var rakið að munnleg sönnunarfærsla gæti ekki farið fram fyrir réttinum eftir gildistöku laga nr. 47/2020. Endurupptökudómi hefði því að réttu lagi borið, miðað við þær ástæður sem dómurinn lagði til grundvallar endurupptöku málsins, að nýta þá heimild sem hann hefur eftir síðari málslið 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að ákveða að vísa því til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Jafnframt hefði Endurupptökudómi borið að gæta að þessu af sjálfsdáðum. Þá vísaði rétturinn til þess að í því ljósi að málið hefði verið endurupptekið af þeirri ástæðu að meðferð þess fyrir Hæstarétti hefði verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu yrði ekki úr því bætt nema með því að leiða X og vitni fyrir dóm til skýrslugjafar. Réttinum væri ókleift að bæta úr þessu og hefði hann heldur ekki að lögum heimild til að hnekkja að þessu leyti niðurstöðu Endurupptökudóms eða vísa málinu til meðferðar hjá Landsrétti. Því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti, enda þjónaði meðferð þess fyrir réttinum fyrirsjáanlega engum tilgangi.

Dóminn má í heild sinni lesa hér.