Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Dómstólar Forsíða
Dómstólar Forsíða

Dómstólar

Breytingar á reglum dómstólasýslunnar

7. janúar 2025

Stjórn dómstólasýslunnar hefur samþykkt nýjar reglur sem tóku gildi 1. janúar sl.

Domstolar þjónusta

Stjórn dómstólasýslunnar hefur samþykkt nýjar reglur um form, afhendingarmáta og staðfestingu skjala í dómsmálum nr. 1662/2024 sem tóku gildi 1. janúar sl.

Í reglunum er mælt fyrir um það með hvaða hætti skjöl skuli berast hverju og einu dómstigi. Aukin áhersla er lögð á að skjöl berist dómstólum með rafrænum hætti. Dómstólasýslunni er falið að taka ákvörðun um það í hvaða kærðu sakamálum skjöl skuli berast Landsrétti í gegnum réttarvörslugátt og í hvaða ákærumálum skjöl skuli berast héraðsdómstólum með sama hætti. Ekki er gerð krafa um að skjöl sem berast dómstólum í gegnum réttarvörslugátt séu jafnframt lögð fram á pappír.

Á grundvelli reglnanna hefur stjórn dómstólasýslunnar tekið ákvörðun um að öll skjöl í kærðum sakamálum þar sem krafist er endurskoðunar úrskurða í rannsóknarmálum samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skuli berast Landsrétti í gegnum réttarvörslugátt. Einnig skulu öll skjöl í ákærumálum sem eingöngu lúta að umferðalagabrotum berast héraðsdómstólum í gegnum réttarvörslugátt. Ákvörðun þessi verður svo endurskoðuð eftir því sem þróun réttarvörslugáttarinnar fleygir fram og hægt verður að taka við fleiri málategundum þar í gegn.

Um áramótin tóku jafnframt gildi nýjar reglur um málsvarnarlaun eða þóknun til verjenda og þóknun til réttargæslumanna o.fl nr. 1/2025 og reglur um sérfróða meðdómsmenn nr. 2/2025. Breytingarnar á þessum reglum lutu eingöngu að fjárhæð þóknunar. Auk þess voru gerðar breytingar á reglum um útgáfu dagskrár héraðsdómstólanna sem fólu í sér að gildistöku 2. og 3. mgr. 3. gr. um birtingu upplýsinga um tegund máls var frestað til 1. júlí 2025.