Fara beint í efnið

Persónuvernd og birting mynda, myndbanda og hljóðupptaka á netinu

Í lögum og reglum er ekki að finna sérstök ákvæði um birtingu ljósmynda og myndbanda né um hljóðupptökur á netinu. Hins vegar gilda um slíkt almennar reglur.

Í því felst að ef hægt er að greina einstakling á mynd eða í myndbandi, sem og að heyra hvaða einstaklingur er á hljóðupptöku, þarf að fara að persónuverndarlögunum. Fyrst og fremst þarf alltaf að vera til staðar heimild til að vinna með upplýsingarnar, til dæmis samþykki. Ef myndefnið sýnir viðkvæmar upplýsingar, eins og um heilsufar einstaklings, þarf að uppfylla tiltekin viðbótarskilyrði.

Að auki verður alltaf að gæta þess að farið sé að meginreglum persónuverndarlaganna, til dæmis um að vinnsla persónuupplýsinga sé sanngjörn, málefnaleg og örugg.

Myndefnið og aðstæður

Almennt má segja að hægt sé að skipta birtingu myndefnis í tvo flokka:

  1. Birting þjóðlífs- og hversdagsmynda með almenna skírskotun, til dæmis af opinberum hátíðarhöldum eða af hópi áhorfenda á íþróttaleik.

  2. Birting mynda þar sem einstaklingurinn er aðalmyndefnið.

Í fyrra tilvikinu er litið svo á að ekki þurfi endilega samþykki viðkomandi einstaklinga fyrir myndbirtingunni en það sé alla jafna skilyrði í síðara tilvikinu, þegar þeir eru aðalefni myndarinnar.

Svigrúm til birtingar á myndefni þrengist síðan til muna ef um er að ræða birtingu sem sýnir aðstæður sem geta talist með einhverjum hætti viðkvæmar eða ef birtingin getur talist meiðandi. Á það við hvort heldur sem um ræðir fyrrnefndar myndir með almenna skírskotun eða myndir af tilteknum einstaklingum.

Myndbirtingar af börnum á netinu

Persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar, þar sem þau eru almennt síður meðvituð um áhættu og afleiðingar í tengslum við vinnslu slíkra upplýsinga sem og eigin réttindi.

Einfaldast er að óska eftir samþykki frá börnunum áður en rætt er um þau á samfélagsmiðlum eða birtar af þeim myndir, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Hafa ber í huga að börn kunna að hafa skoðun á umfjöllun um þau eða myndbirtingum af þeim, þrátt fyrir ungan aldur, og taka ber tillit til skoðana þeirra.

Foreldrar, forsjáraðilar og aðrir sem annast börn og bera ábyrgð á velferð þeirra eiga að vera meðvitaðir um réttindi barna til persónuverndar. Börn ætti aldrei að sýna á niðrandi eða óviðeigandi hátt, til dæmis þannig að þau séu nakin, klæðalítil eða í erfiðum aðstæðum. Brýnt er að hafa í huga að allt sem birt er á netinu má finna síðar og getur haft áhrif á líf barnsins með ýmsum ófyrirséðum hætti. Er því rétt að setja sig í spor barnsins og hugsa um hvaða áhrif umfjöllun eða myndir geta haft á barnið síðar.

Áður en þú setur ljósmynd eða aðrar upplýsingar um barnið þitt (eða annarra) á samfélagsmiðla er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Fáðu alltaf samþykki barnsins fyrir birtingu ljósmyndar eða annarra upplýsinga um það á samfélagsmiðlum.

  • Staldraðu við áður en þú setur inn efnið og veltu fyrir þér hvort þetta eigi yfirleitt erindi við aðra.

  • Myndir af nöktum eða fáklæddum börnum eiga ekki heima á netinu, hvort sem myndin er tekin heima í baði eða á sólarströnd.

  • Ekki birta ljósmynd af barni sem líður illa, sýnir erfiða hegðun, er veikt eða er að öðru leyti í viðkvæmum aðstæðum.

  • Forðastu að birta upplýsingar og ljósmyndir af börnum í umræðuhópum á samfélagsmiðlum. Óskaðu frekar eftir spjalli við aðila í sömu sporum beint, til dæmis í síma eða í einkaskilaboðum, frekar en í opnu spjalli.

  • Ekki ganga út frá því að börn séu hlynnt því að þú segir frá atvikum í lífi þeirra á samfélagsmiðlum. Spurðu barnið hvort þú megir segja frá til dæmis sigrum á íþróttamótum eða góðum námsárangri, áður en þú gerir það.

  • Fullvissaðu þig um að friðhelgisstillingar þínar á samfélagsmiðlum séu þannig að ljósmyndir og aðrar upplýsingar um börnin þín séu ekki aðgengilegar öllum.

  • Áður en þú birtir ljósmyndir, kannaðu hvort þú þurfir að aftengja GPS hnit, þannig að ekki sé hægt að sjá hvar myndin er tekin.

Í öllum tilvikum, hugsaðu um það sem barninu er fyrir bestu, leitaðu eftir sjónarmiðum þess áður en þú birtir eitthvað um það á samfélagsmiðlum, og hugsaðu um hvaða áhrif það gæti haft á barnið til skemmri eða lengri tíma.

Leiðbeiningar fyrir foreldra um netið, samfélagsmiðla og persónuvernd hjá Umboðsmanni barna

Ef þú vilt láta fjarlægja mynd af þér sem birt hefur verið á netinu

Ef myndir af þér eru birtar í óþökk þinni á netinu er best að leita fyrst til þess sem birti þær og óska eftir því að þær verði fjarlægðar.

Ef þú kvartar yfir birtingu mynda hjá einhverjum sem þú þekkir og tengist er líklegt að Persónuvernd fjalli ekki um kvörtunina. Ef myndirnar eru birtar hjá einhverjum sem þú þekkir ekki og þeim fylgir enginn texti getur hins vegar verið að Persónuvernd taki kvörtunina til skoðunar. 

Öryggi upplýsinga á netinu

Hafa ber í huga að öryggi mynda á netinu, þar með talið á samfélagsmiðlum, verður aldrei fulltryggt. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að myndum eða umfjöllun verði dreift, jafnvel af lokuðum síðum. Þá skal hafa í huga að meðlimafjöldi á lokuðum síðum getur skipt hundruðum og jafnvel þúsundum og þannig er verið að deila upplýsingum, jafnvel viðkvæmum heilsufarsupplýsingum, með ófyrirséðum fjölda einstaklinga. Þess utan er ávallt verið að deila efninu með þeim miðli sem upplýsingarnar eru birtar á.

Þá þarf að hafa það í huga að samfélagsmiðlar og smáforrit deila í síauknum mæli persónuupplýsingum sín á milli. Þeir sem nota samfélagsmiðla og smáforrit hafa því sjaldnast fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn. Gæta þarf sérstakrar varúðar þegar um er að ræða þátttöku í spurningakönnunum, persónuleikaprófum og leikjum inni á samfélagsmiðlum þar sem er óskað eftir aðgangi að þínum persónuupplýsingum.

Mikilvægt er að fara varlega við að deila upplýsingum um staðsetningu á netinu. Upplýsingar um staðsetningu og GPS-hnit fylgja til dæmis oft ljósmyndum. Því er nauðsynlegt að gæta þess hvort og þá með hvaða hætti staðsetningaupplýsingum er deilt á netinu.

Þjónustuaðili

Persónu­vernd

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820